Ákvörðunin kom ekki á óvart

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, og Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri.
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, og Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri. Samsett mynd

Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, segir að ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að halda stýrivöxtum óbreyttum hafi í sjálfu sér ekki komið á óvart.

Peningastefnunefnd kynnti ákvörðun sína í morgun en stýrivextir verða áfram 9,25%

Á ekki von á að vextir fari að lækka

„Við vorum þeirrar skoðunar að Seðlabankinn væri búinn að ganga full langt í þessu og ætti að bíða eftir því að þetta væri farið að virka. Þannig fannst okkur þetta vera eðlilega ákvörðun þeirra að gera þetta með þessum hætti.“

Finnbjörn segir auðvitað bölvanlegt að búa við svona háa stýrivexti en ákvörðun dagsins hjálpi aðeins til í ástandinu.

„Ég á nú ekki von á að stýrivextir fari að lækka en þessi mikla hækkun sem hefur verið tekur tíma að dreifast út og hafa áhrif. Ef ekkert breytist til hins verra þá á ég frekar von á því að við séum búin að ná toppinum.“

Verkefnið eftir sem áður ærið

Telurðu að ákvörðun dagsins komi til með að liðka fyrir þeirri vinnu sem fram undan er hjá ykkur?

„Þetta er náttúrulega bara „status quo“. Þetta skemmir ekki fyrir en verkefnið er eftir sem áður ærið. Þetta er mjög fjölþætt verkefni og það þurfa margir að koma að. Eftir því sem við getum fyrr byrjað að éta okkur niður úr skaflinum þeim mun fyrr sjáum við þá fyrir endann á því ef við sjáum það.“

Finnbjörn kveðst þolanlega bjartsýnn á verkefnið sem fram undan er við gerð kjarasamninga.

„Maður fer ekkert í verkefni öðruvísi en maður ætli að leysa það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert