Ekki tekið tillit til mikilvægra atriða og hagsmuna íbúa

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, spurðist fyrir um kostnað við skipulagssamkeppni.
Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, spurðist fyrir um kostnað við skipulagssamkeppni. mbl.is/Sigurður Bogi

Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í gær um nýja byggð í Keldnalandi var upplýst að kostnaður við skipulagssamkeppni svæðisins hafi numið 100 milljónum króna. 

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, spurðist fyrir á fundinum um kostnað við skipulagssamkeppnina. 

„Borgarstjóri, sem var einnig formaður dómnefndar, upplýsti okkur að kostnaðurinn um samkeppnina sem slíka væri um 100 milljónir króna. Það finnst mér mikið miðað við þá vankanta og jafnvel ágalla, sem eru augljóslega á verðlaunatillögunni. 

Maður skyldi ætla að vinningshafar samkeppninnar hafi vandað sig og verið með allar upplýsingar en miðað við útkomuna virðast hafi vanta upp á að þeir þekki aðstæður í Grafarvogi sem og í Reykjavík. Það er eins og þeir hafi ekki áttað sig á því að til stendur að friðlýsa sjálfan Grafarvog en verðlaunatillagan ber það þó ekki með sér,“ segir Kjartan í samtali við mbl.is. 

Þarf að huga miklu betur af innviðum 

„Í verðlaunatillögunni er ekki tekið tillit til mikilvægra atriða og hagsmuna íbúa, sem eðlilegt væri að leggja til grundvallar, þegar svo stórt hverfi er skipulagt við hlið eldri byggða. Það var verið að tala um að á tímabili að þarna yrðu 8 þúsund manns en nú er talað um 10-15 þúsund. Og þegar annarri íbúafjölgun í Grafarvogi er bætt við lætur nærri að íbúafjöldi hverfisins tvöfaldist.  

Þá þarf að huga miklu betur að innviðum en gert er í þessari tillögu. Maður sér í tillögunum að það er hugað að skólabyggingum og hvar þær eiga að vera en það er ekkert íþróttasvæði. Það er augljóst að ef Fjölnir á að taka við öllum þessum fjölda í barna-og unglingastarfi þá þarf íþróttasvæði í þetta hverfi. Samgöngu tengingarnar eru gífurlegur veikleiki. Það er bara treyst á borgarlínu,“ segir Kjartan. 

– – –

Fréttin hefur verið leiðrétt. Orðaskipti urðu í borgarstjórn um smithættu í jarðvegi, en grunsemdir um hana reyndust ekki á rökum reistar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert