Gengur illa að kæla fasteignamarkaðinn

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundinum í morgun.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundinum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Krafturinn í fasteignamarkaðnum hefur verið mun meiri en við var að búast. Þetta sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri þegar hann og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningamála, kynntu yfirlýsingu peningastefnunefndar bankans um óbreytta stýrivexti.

Ásgeir sagði íbúðum á sölu hafa fjölgað verulega, eins og komið hefði fram í efni Fjármálastöðugleika á dögunum.

500 íbúðir hefðu verið til sölu árið 2022 en að núna væru þær orðnar um 4.000. Mjög lítil sala væri á íbúðum stærri en 100 fermetrar og að nýbyggingar seldust ekkert sérlega vel. Á sama tíma tækju verktakar lán sem sé ákveðin vísbending um að það gangi illa að selja.

„Þetta er dálítið misvísandi því allt það sem við sjáum er að það sé að hægja á byggingageiranum. Að sama skapi sjáum við enn í tölum Hagstofunnar að þetta er að hækka og þetta veldur mér ákveðnum heilabrotum,” sagði Ásgeir.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aðlögun á fasteignamarkaði nauðsynleg

Hann sagði raunverð íbúða hafa lækkað og að hækkanir hefðu ekki haldið í við verðbólgu.

„Það hefur verið miklu meiri kraftur í þessum fasteignamarkaði heldur en ég hefði gert ráð fyrir,” greindi hann frá. 

„Ég hefði haldið að lánþegaskilyrðin samhliða vaxtahækkunum ættu að hafa kælt þennan markað. Það hefur gengið miklu seinna. Það stafar af ýmsum þáttum, skorti af framboði lengi vel, kannski ekki núna, miklum kaupmætti heimilanna og mikilli fólksfjölgun á landinu sem hefur ýtt þessu upp.”

Ásgeir bætti við að aðlögun á fasteignamarkaði væri einn þeirra þátta sem þyrfti að eiga sér stað til að ná niður verðbólgunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert