Sigurður Bogi Sævarsson
Alvarleg staða er uppi í rekstri fjölda kúabúa á landinu og telja bændur mikilvægt að hið opinbera stígi inn sem fyrst og bæti starfsskilyrðin.
„Svo gæti farið að einhverjir þyrftu á næstu misserum að játa sig sigraða og hætta. Verð á öllum aðföngum til búrekstrar hefur rokið upp. Þá eru háir vextir stór áhrifaþáttur,“ segir Ágúst Guðjónsson, bóndi á Læk í Flóa og formaður Auðhumlu, en það er samvinnufélag kúabænda sem á meirihluta Mjólkursamsölunnar.
Greiðslumark í mjólkurframleiðslu á síðasta ári var 149 milljónir lítra. Opinberi stuðningurinn miðast hins vegar við 106 milljóna lítra framleiðslu árið 2005. Minna er því greitt með hverjum lítra mjólkur og segir Ágúst að beingreiðslur, eins og þessi stuðningur kallast, ætti að vera 4,8 milljörðum króna hærri nú en er raunin. Því sé mikilvægt að endurskoða allar forsendur og auka við stuðninginn, sem í grunninn byggist á módeli eða reiknilíkani frá 2001. Meðalstærð á kúabúi í dag er ársframleiðsla upp á 300 þúsund lítra. Tekjur á slíku búi geta verið um 60 milljónir á ári og algengt er að skuldir búanna séu „… jafnvel hundruð milljóna króna vegna fjárfestinga á undanförnum árum“, segir Ágúst Guðjónsson og bætir við:
„Víða í dreifbýlinu eru atvinnutækifæri og því hafa bændur þann möguleika að snúa sér að öðru. Og slíkt er að gerast. Frá síðustu 2-3 árum eru nokkur dæmi – nærri tugur – um að bændur sem hafa lagt í miklar fjárfestingar með tæknivæddum kúabúum hafi hætt. Selt tæki og framleiðslurétt og fleira og snúið sér að öðru. Og þessi bú gætu orðið fleiri á næstu misserum haldi svo fram sem horfir.“
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.