Kílómetragjald leggst fyrr á rafmagnsbílaeigendur

Í áætlunum er miðað við að kílómetragjald verði 6 kr. …
Í áætlunum er miðað við að kílómetragjald verði 6 kr. á næsta ári fyrir rafmagns- og vetnisbíla. mbl.is/Árni Sæberg

Eigendur rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbíla munu þurfa að greiða kílómetragjald árið 2024. Er það um ári fyrr en eigendur dísel- og bensínbíla sem verða rukkaðir um gjaldið í ársbyrjun 2025. 

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins, þar sem frá þessu er greint, segir að kílómetragjaldið sé hluti af nýju kerfi, og muni það leysa af hólmi sérstakt gjald á bensín og olíu sem nú sé í gildi.

Rafmagns-, vetnis- og tengiltvinnbílar hafi hingað til borið takmarkaðan kostnað af notkun vegakerfisins og að árangur í orkuskiptum kalli á að fjármögnun vegasamgangna verði óháð jarðefnaeldsneti.

Í áætlunum er miðað við að kílómetragjald verði 6 kr. á næsta ári fyrir rafmagns- og vetnisbíla.

Tengiltvinnbílar munu hins vegar greiða 2 kr. kílómetragjald á næsta ári, sem er þriðjungur á við rafmagnsbíla, þar sem þeir nota bæði rafmagn og jarðefnaeldsneyti og greiða áfram tilheyrandi gjöld fyrir notkun hins síðarnefnda.

Aka fleiri kílómetra á hverjum lítra eldsneytis

„Miklar framfarir í þróun sparneytnari bíla hafa leitt til þess að nýrri bílar geta ekið töluvert fleiri kílómetra á hverjum lítra eldsneytis. Þessi þróun hefur á sama tíma veikt getu ríkissjóðs til að fjármagna viðhald og uppbyggingu vega þar sem sú tekjuöflun byggist að stórum hluta á föstu gjaldi á hvern lítra eldsneytis,“ segir í tilkynningunni.

Kemur þar einnig fram að með því að innleiða nýja kerfið í tveimur skrefum verði hægt að draga lærdóm af innleiðingunni og styrkja fyrirkomulagið enn frekar til framtíðar.

Rafmagns- og tengiltvinnbílar séu orðnir tæpur fimmtungur af fólksbílum í umferð og að Ísland sé komið í fremstu röð meðal þjóða í orkuskiptum. Er tekið fram að það sé ekki síst fyrir tilstilli mikils skattastuðnings stjórnvalda.

Samhliða árangri í orkuskiptum og minni eldsneytiseyðslu bílaflotans hefur fólki fjölgað og umferð aukist, með vaxandi álagi á vegakerfið og þörf fyrir samgöngubætur. Því er mikilvægt að til staðar sé kerfi sem getur stutt fjármögnun uppbyggingar og viðhalds vegasamgangna í takt við notkun.

Stjórnvöld hafa fjárfest í umfangsmiklum samgöngubótum á undanförnum árum til að bregðast við auknu álagi. Í drögum að þingsályktunartillögu um samgönguáætlun 2024-2038 eru enn frekari framkvæmdir boðaðar með það að markmiði að tryggja greiðar og öruggar vegasamgöngur um allt land,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert