Nokkuð kröftugur skjálfti varð í Bárðarbungu nú fyrir skömmu. Mældist hann 4,7 að stærð samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.
Fjórtán stórir skjálftar hafa orðið í Bárðarbungu það sem af er ári.
Skjálftinn reið yfir kl. 16.11 í dag um 4,9 kílómetrum suðaustur af Bárðarbungu.
Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að skjálfti af þessari stærð hafi seinast orðið í Bárðarbungu í febrúar og var hann þá 4,8 að stærð. Þar á undan hafi skjálfti af stærðinni 4,9 orðið í júlí í fyrra.
„Í rauninni eru skjálftar af þessari stærðargráðu fremur algengir í Bárðarbungu,“ segir Einar Bessi. „Við vorum síðast með skjálfta þarna þann 3. september. Hann var um 3,9 [að stærð].“
Einar bætir við að alls hafi um 14 skjálftar sem eru yfir 3 að stærð orðið í Bárðarbungu það sem af er ári.
Fréttin hefur verið uppfærð.