Viðurkenndi „bossapartý“ með leikskólabörnum

Maðurinn viðurkenndi brot sín.
Maðurinn viðurkenndi brot sín. mbl.is/​Hari

Ungur karlmaður hefur gengist við blygðunarsemis- og barnaverndarlagabroti sem fólst m.a. í því að hafa fengið leikskólabörn til þess að gyrða niður um sig og sýna á sér rassinn, sem hann nefndi „bossapartý.“ Einnig að hafa gyrt niður um sig og sýnt börnunum rassinn á sér.

Þá viðurkenndi hann einnig að hafa strokið rassinn á barni utanklæða og káfað á kynfærum barns innanklæða.

Maðurinn var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjaness.

Fyrir dómi játaði maðurinn afdráttarlaust sök en hann hafði fram til þessa hreina sakarskrá. Við ákvörðun refsingar var tekið tillit til ungs aldurs mannsins þegar brotin áttu sér stað. Þá kemur fram að hann hafi leitað sér hjálpar eftir atvikin.

Í ljósi þessa frestaði dómari ákvörðun um refsingu og mun hún falla niður að liðnum 5 árum, haldi hann almennt skilorð.

Foreldrar þriggja barna gerðu kröfu um miskabætur. Tvennir upp á 1,5 milljónir króna og hinir upp á 2,5 milljónir króna. Ungi maðurinn viðurkenndi bótaskyldu en mótmælti upphæðinni. Taldi dómari rétt að krefja hann um greiðslu 50 þúsund króna í tveimur tilfellum en um 200 þúsund krónur í einu tilfelli. Er sagt í dómi að ef tekið sé mið af gögnum sé ekki um varanlegan miska að ræða.

Þá var honum gert að greiða málskostnað lögmanns og réttargæslumanns brotaþola. Samtals upp á rúmar 900 þúsund kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert