Vísað úr landi eftir sex ára dvöl

Isaac hefur fengið símtöl um að nú eigi að vísa …
Isaac hefur fengið símtöl um að nú eigi að vísa honum úr landi, árlega frá árinu 2019. mbl.is/Hákon

Þann 16. október á að vísa vallarstjóra Þróttar úr landi, eftir sex ára bið og óvissu hér á landi. Lögregluþjónn lagði á dögunum leið sína á skrifstofu Þróttar og tilkynnti framkvæmdastjóra félagsins að búið væri að kaupa flugmiðann.

Morgunblaðið fjallaði fyrst um mál Isaacs í sumar þegar knattspyrnufélagið Þróttur gagnrýndi vinnubrögð stjórnvalda í ákvörðunum útlendingamála. 

Þá sagðist María Edwardsdóttir, framkvæmdastjóri Þróttar, vonast til þess að fundin yrði varanleg lausn sem myndi losa Isaac Kwateng, vall­ar­stjóra félagsins, undan þeirri óvissu sem fylgir endalausum umsóknum og framlengingum, en Isaac hefur dvalið hér á landi í rúm sex ár.

Endalaus barátta við kerfið

Isaac, sem er frá Gana, kom hingað til lands árið 2017 og sótti þá um alþjóðlega vernd. Í samtali við mbl.is segist hann hafa verið í endalausri baráttu við kerfið síðan þá. Til að mynda hefur hann fengið símtöl árlega, síðan árið 2019, um að nú eigi að senda hann úr landi. 

Í ár hafa tilkynningar um að nú eigi að senda hann úr landi þó verið tvær.

Fyrst barst honum símtal í júní, eftir að úrskurðarnefnd útlendingamála neitaði honum um endurupptöku á umsókn sinni um alþjóðlega vernd. Isaac var þó ekki vísað úr landi þar sem atvinnu- og dvalarleyfi hans var framlengt tímabundið.

Fyrir tæpum tveimur vikum, þann 21. september, kom lögregluþjónn á skrifstofu Þróttar og tilkynnti að búið væri að kaupa flugmiða fyrir Isaac þann 16. október. María hafði þá fengið þau svör frá lögreglu í sumar að þrátt fyrir tímabundna framlengingu hefði lögregla áfram heimild til þess að vinna að frávísuninni. 

Isaac á aðalvelli Þróttar ásamt mörg hundruð stuðningsmönnum, bæði hans …
Isaac á aðalvelli Þróttar ásamt mörg hundruð stuðningsmönnum, bæði hans og félagsins. mbl.is/Hákon

Sterkari hótun en áður

María segir Isaac hafa fengið taugaáfall við fregnirnar enda upplifi hann þær sem enn meiri hótun en áður. Hún segist þó sjálf ekki vita hvort um sé að ræða innantóma hótun eða ekki. 

Hún kveðst þó enn binda vonir við að Isaac verði ekki sendur úr landi fyrr en búið verði að taka umsókn hans um ríkisborgararétt fyrir á Alþingi, en umsókn þess efnis hefur verið lögð fram.

Umsóknirnar eru þó einungis teknar fyrir tvisvar á ári og því verður umsóknin líklega ekki tekin fyrir fyrr en í desember, segir hún. 

Gagnrýnir lagaramma málaflokksins

Helgi Þor­steins­son Silva, lögmaður Isaacs, bindur jafnframt vonir við að Isaac verði ekki vísað úr landi fyrr en umsókn hans um ríkisborgararétt hefur verið tekin fyrir á Alþingi.

Hann gagnrýnir lagaramma málaflokksins og segir það ekki fólkinu sem sækir um alþjóðlega vernd, á grundvelli 51. greinar laga um útlendinga, að kenna hversu langur afgreiðslutími Útlendingastofnunar er.

„Þegar þú kemur hingað til lands þá er eðlilegt að þú teljir að þú fáir alþjóðlega vernd og því sækir þú um það,“ segir Helgi sem bætir við að umsækjendur fái síðan kannski ekki svar fyrr en eftir hálft ár, en þá er orðið of seint að sækja um önnur úrræði.  

„Þegar þú færð það svar þá eru allar dyr lokaðar.“

Sex ára limbó

Til útskýringar þarf að sækja um dvalarleyfi á grundvelli annarra leyfa innan þriggja mánaða frá komu hingað til lands. Á þeim tæpu sex árum sem Isaac hefur beðið niðurstöðu í máli sínu hefur hann því ekki getað sótt um dvalarleyfi á grundvelli annarra leyfa. 

„Hann er búinn að vera hér í einhverju limbói í um sex ár. En hver er þá krafan? Að hann þurfi að fara til Gana og koma síðan hingað aftur og sækja um á öðrum grundvelli?“ spyr Helgi sem óttast afdrif Isaacs í Gana þar sem hann á engan að, en foreldrar hans létu lífið áður en Isaac kom hingað til lands. 

„Þetta er munaðarlaus strákur, maður getur ímyndað sér að hann verði strandaglópur á flugvelli þegar hann kemur þangað.“ 

Þróttarar slegnir

Eins og áður sagði binda María og Helgi vonir við að Isaac fái að vera áfram hér á landi þar til umsókn hans um ríkisborgararétt hefur verið tekin fyrir á Alþingi. 

„Fyrst að það er liðinn svona langur tími [frá því að fyrst átti að vísa honum úr landi] þá er það mannúðlegra,“ segir Helgi og vísar meðal annars til samstöðunnar í samfélagi Þróttara sem komu saman á aðalvelli félagsins í sumar til þess að sýna Isaaci stuðning í verki.   

María vísar jafnframt til þess í samtali við blaðamann og segir Þróttara slegna yfir því að búið sé að kaupa flugmiða og að nú eigi að vísa Isaaci úr landi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert