Alls 151 barn sem vistað var á unga aldri á vöggustofunum var síðar meir vistað á stofnunum ríkis og sveitarfélaga sem áttu að þjóna sem úrræði á sviði barnaverndar. Alls voru 1.083 börn vistuð á vöggustofunum á þessu tímabili en samkvæmt því voru tæp 14% þeirra einstaklinga sem vistaðir voru á vöggustofunum einnig vistaðir síðar meir á slíkum stofnunum.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í greiningu nefndar sem rannsakaði starfsemi vöggustofa sem reknar voru í Reykjavík árin 1949 til 1973.
Gerður var samanburður á listum yfir börn sem dvöldu á Silungapolli, Kumbaravogi, Reykjahlíð og heimavistarskólanum Jaðri við skrá yfir börn á vöggustofunum og sýnir hann að af ofangreindu 151 barni hafi 116 börn dvalið bæði á einni þessara stofnana sem og á vöggustofu.
Þetta eru tæp 11% allra þeirra barna sem vistuð voru á vöggustofum Reykjavíkurborgar á tímabilinu 1949 til 1973.
Nefndin setur þó þann fyrirvara við samanburðinn verður þó að í nafnalistum vistheimilanefndar er ekki samræmdur ritháttur á nöfnum eftir því hvernig þau koma fyrir í þjóðskrá, ólíkt listanum yfir börn á vöggustofum. Í listum vistheimilanefndar skorti enn fremur oft fullt nafn og/eða fæðingardag. Við samanburð listanna hafi þó verið stuðst við bæði nöfn og fæðingardaga, þar sem því var við komið og leitast við að staðreyna eftir fremsta megni að um sömu börnin væri að ræða.
Þá segir í skýrslu nefndarinnar að af gögnum vistheimilanefndar verði ráðið að alls hafi 80 börn sem voru vistuð á vöggustofunum einnig verið vistuð á Silungapolli. Við samanburð á sömu gögnum megi jafnframt ráða að alls hafi sex börn einnig verið vistuð á Kumbaravogi í framhaldi af dvöl á vöggustofu og eitt í Reykjahlíð. Auk þess hafi tíu börn sem vistuð voru á vöggustofu síðar verið við nám í heimavistarskólanum Jaðri. Þá sé ljóst af gögnunum að 19 vöggustofubörn hafi verið vistuð á fleiri en einni stofnun í kjölfar vistunar á vöggustofu.
Enn fremur segir að af þeim 116 börnum sem vistuð voru á Silungapolli, Kumbaravogi eða Reykjahlíð og höfðu áður dvalið á vöggustofu, voru 49 sem höfðu verið vistuð á vöggustofu í að minnsta kosti hálft ár þegar þau voru vistuð á einni af ofangreindum stofnunum. Alls voru 317 börn vistuð lengur en hálft ár á vöggustofunum eða rúm 29%. Ljóst er því að rúmlega 15% þeirra barna sem þegar höfðu sætt svo langri vistun á vöggustofum voru einnig vistuð síðar á öðrum vistheimilum.
Eftir athugun á öllum þeim gögnum barnaverndarnefndar sem nefndin hefur tekið til athugunar á starfstíma Vöggustofunnar Hlíðarenda telur hún unnt að álykta sem svo að alls hafi 78 börn farið í fóstur í kjölfar vistunar. Í ljósi þess að nefndin hefur talið unnt að slá því föstu að börnin sem vistuð voru á Hlíðarenda voru alls 475 talsins ber þessi tala með sér að alls hafi rúmlega 16% þeirra barna sem vistuð voru á vöggustofunni farið í fóstur að lokinni dvöl. Það jafngildir því að nálægt sjötta hvert vöggustofubarn hafi farið í einhvers konar fóstur.
Ekki verður séð að það hafi orðið algengara að barnaverndarnefnd ráðstafaði börnum í fóstur eftir að Vöggustofa Thorvaldsensfélagsins tók til starfa árið 1963. Samkvæmt þeim upplýsingum sem nefndin hefur aflað má ráða að alls hafi 93 börn af þeim 608 börnum sem vistuð voru á vöggustofunni frá júní 1963 til ársloka 1973 farið í fóstur. Það jafngildir að alls hafi rúm 15% þeirra barna sem vistuð voru á vöggustofunni farið í fóstur sem er lítið eitt lægra hlutfall en á Vöggustofunni Hlíðarenda.
Þá segir að ekki sé samkvæmt fyrirliggjandi gögnum unnt að gera greinarmun á hvort fóstur hafi verið tímabundið eða varanlegt. Í ársskýrslum barnaverndarnefndar Reykjavíkur fyrir árin 1950 til 1962 kemur fram að hún hafi á þessu tímabili mælt með alls 443 ættleiðingum. Af athugun á gögnum barnaverndarnefndar verður ekki ráðið að algengt hafi verið að börn hafi verið ættleidd í beinu framhaldi af vistun á vöggustofu.