Björgunarsveitir „skipta sköpum í þessu samfélagi“

Guðni bað erlenda gesti ráðstefnunnar að láta sig vita ef …
Guðni bað erlenda gesti ráðstefnunnar að láta sig vita ef þeim líkar ekki dvölin hér á landi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forseti Íslands bauð gesti EU Safety 2023 ráðstefnunnar velkomna til Íslands í morgun með von um að allir myndu njóta dvalar sinnar hér á landi. Hann segir Íslenskar björgunarsveitir skipta sköpum hér á landi og þakkar sjálfboðaliðum fyrir óeigingjarnt starf.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, setti í morgun ráðstefnu EU Safety 2023 á Hótel Nordica, sem slysavarnafélagið Landsbjörg stendur fyrir í samvinnu við Euro Safty. Ráðstefnan er haldin annað hvert ár í einhverju landa Evrópu, og er nú haldin í fyrsta skipti á Íslandi.

Um 70 erlendir fyrirlesarar munu sækja ráðstefnuna heim, og fjalla um fjölmargt sem kemur að slysavörnum, slysarannsóknum og forvörnum. Þar á meðal fyrirlestur um notkun reiðhjóla undir áhrifum áfengis og leiðir til að draga úr því, brunavarnir, aukinn hluti rafhlaupahjóla í umferðarslysum svo eitthvað sé tekið til.

Áður en Guðni var kynntur á svið fór Caroline Lefort, …
Áður en Guðni var kynntur á svið fór Caroline Lefort, formaður Slysavarnardeildar Reykjavíkur, yfir neyðarútganga til að koma í veg fyrir slys enda um slysavarnarráðstefnu að ræða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sérstakur áhugi á sjálfboðaliðastarfi björgunarsveita

Í setningarræðu sinni bauð Guðni erlenda gesti ráðstefnunnar sérstaklega velkomna. Eins og sönnum Íslendingi sæmir sagðist Guðni vona að gestirnir myndu njóta dvalar sinnar hér á landi, ef ekki þá skyldu þau endilega láta hann vita svo hann gæti tekið á málinu.

Þá fjallaði hann jafnframt um mikilvægi björgunarsveita hér á landi, sem hann segir fylla Íslendinga stolti og öryggi.

„Þær skipta sköpum í þessu samfélagi. Við vitum það manna best við Íslendingar að ef fólk lendir í vandræðum og er í nauðum statt þá reiðum við okkur á björgunarsveitirnar. Hér á Íslandi, í ríkara mæli en víðast annars staðar, reiðum við okkur á sjálfboðaliða og það er það sem okkar góðu gestum finnst áhugavert og vilja heyra meira um,“ segir Guðni í samtali við mbl.is.

Guðni sem forsætisráðherra Bretlands

Guðni segir ráðstefnuna þó ekki síst mikilvæga fyrir íslenska viðbragðsaðila til þess að læra af öðrum. Viðbragðsaðilana sem leggja frá sér tæki og tók og hverfa til björgunarstarfa á hvaða tíma dags, hvenær sem er á árinu.

„Það fólk er kjarninn í starfsemi björgunarsveitanna, en svo höfum við líka sérfræðinga sem leiða starfið. Það er þessi blanda sem ég held að gestum hér þyki hvað áhugaverðust.“

Guðni vakti mikla hrifningu gesta, þá sérstaklega bresks manns sem gekk upp að honum að loknu samtali við blaðamann og spurði: „Gætir þú nokkuð boðið þig fram sem næsti forsætisráðherra Bretlands?“

Guðni fjallaði um mikilvægi björgunarsveita hér á landi, sem hann …
Guðni fjallaði um mikilvægi björgunarsveita hér á landi, sem hann segir fylla Íslendinga stolti og öryggi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert