Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar, vék máli sínu að Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra í ávarpi í gær á árlegri ráðstefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Í upphafi erindis síns sagði Áslaug að sér fyndist „við almennt vera að sofna á verðinum í íslensku samfélagi á mörgum sviðum“.
„Og það er það sem mig langar að tala um í dag. Ég viðurkenni að það er reyndar mjög freistandi að tala um málefni líðandi stundar. Bara mjög freistandi. Ég gæti rætt um gullhúðun íslenskra stjórnvalda og þungt regluverk ESB,“ sagði hún.
„Ég gæti rætt um hvalveiðar, nú eða sjókvíaeldið – eða bara Samkeppniseftirlitið og jafnvel verktaka þess, ráðuneytið, ákveðið ráðuneyti sem er einmitt í sama húsi í B26,“ bætti hún við og vísaði þar til hússins við Borgartún 26.
„Ég gæti líka rætt samnefnarann yfir þetta flest: Svandísi Svavarsdóttur ...“
Um leið og Áslaug sleppti orðinu birtist mynd af Svandísi á stórum skjá andspænis ráðstefnugestum. Hún hélt svo áfram að tala um samráðherra sinn.
„... sem situr með mér í ríkisstjórninni, ríkisstjórninni sem þið auðvitað elskið öll svo heitt og innilega. Og um hana get ég sagt eitt – sem sagt ríkisstjórnina, ekki Svandísi – þessi ríkisstjórn, hún er skárri með Sjálfstæðisflokknum í honum [sic] en án hans.“
Áslaug ítrekaði að það væri mjög freistandi að fara yfir „þessi mál og málefni dagsins, en yfirskrift fundarins – hún er nýsköpun í sjávarútvegi, og ég ætla að nálgast það hér sem grjóthart efnahagsmál“. Hélt hún svo erindi sínu áfram, eins og greint var frá í gær.