Matvælaeftirlit heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar lagði í síðustu viku hald á nokkur tonn af matvælum sem geymd voru við óheilnæmar aðstæður á höfuðborgarsvæðinu.
Um er að ræða alls konar tegundir matvæla, allt frá sósum og annars konar kælivöru að þurrvöru og kjöti.
Framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins og deildarstjóri matvælaeftirlitsins segja málið fordæmalaust og einstakt.
Aðgerðin, sem var umfangsmikil, fór fram í síðustu viku og stendur rannsókn nú yfir. Alls komu tíu heilbrigðisfulltrúar að aðgerðinni en þó ekki allir á sama tíma.
Að sögn Óskars Ísfeld Sigurðssonar deildarstjóra er búið að farga matvælunum en ljóst er að þau voru ekki hæf til neyslu.
Hann kveðst ekki geta fullyrt hvað eigandinn hafi ætlað að gera við þau en umfang þeirra gefi til kynna að hann hafi ekki ætlað að neyta þeirra sjálfur.
Ekki fengust upplýsingar um hvort matvælin væru á vegum einstaklings eða fyrirtækis.
„Við komumst á snoðir um ólöglegan matvælalager, þar sem meðal annars voru frystikistur með ýmiss konar matvælum. [...] Við skoðuðum matvælin þegar við komum þarna inn og það var fljóttekin ákvörðun að það þyrfti að farga þeim öllum. Matvælin voru geymd við þannig aðstæður að okkar mat var að þau væru óneysluhæf.“
Var þetta mikið magn?
„Já, þetta var töluvert mikið magn af matvælum,“ segir Óskar og bætir við að um hafi verið að ræða matvæli sem skiptu nokkrum tonnum. Nákvæmur kílóafjöldi liggi þó ekki fyrir.
Hvað átti að gera við þessi matvæli?
„Við getum ekki fullyrt neitt um það hvað viðkomandi hafi ætlað sér að gera við þetta. Viðkomandi var að geyma þetta þarna og hafði ekki tilskilin leyfi og húsnæðið hentaði ekki til geymslu heldur.“
Er einhver ástæða til þess að halda að veitingastaðir hafi verið að kaupa matvælin?
„Við höfum engar upplýsingar um slíkt.“
Förgun matvælanna lauk nú á mánudag, í kjölfar aðgerðarinnar í síðustu viku.
„Það var farið með þau á viðeigandi sorpstað. Í þessu tilfelli var farið með þau í GAJU [gas- og jarðgerðarstöð Sorpu í Álfsnesi]. Þar eru umbúðir og pappír hreinsað í burtu og svo fer þetta í moltugerð.“
Aðspurður kvaðst hann ekki geta staðfest hvar matvælin voru geymd.
„Það mikilvæga í þessu er náttúrulega að það er búið að ná utan um þau matvæli sem þarna voru og tryggja að þau fari ekki í dreifingu, ef það var ætlunin.“
Spurður um viðurlög við geymslu matvæla við þessar aðstæður ítrekar Óskar að málið sé enn til rannsóknar en tekur fram að sektarheimildir matvælaeftirlitsins séu ekki skýrar.
„Þetta er eitthvað sem við erum að skoða í samvinnu við okkar lögfræðinga.“