„Okkar vilji er að stöðin fari“

Ýmir Örn Finnbogason, framkvæmdastjóri N1, segir fyrirtækið vilja að bensínstöðin …
Ýmir Örn Finnbogason, framkvæmdastjóri N1, segir fyrirtækið vilja að bensínstöðin við Ægisíðu víki þaðan. Samsett mynd

Framkvæmdastjóri N1 segist gera ráð fyrir því að það samkomulag haldi, sem gert var við borgina vegna bensínstöðvarlóðar að Ægisíðu 102. Er það þrátt fyrir að Borgarsögusafn leggi til friðun á bensínstöðinni í úttekt sinni.

Bensínstöðin er ein fjögurra í Reykjavík sem lagt er til að friða.  

Borgaryfirvöld hafa reiknað með að reiturinn verði nýttur til uppbyggingar húsnæðis. Í samkomulaginu fólst einnig að N1 fengi úthlutað lóð við Fiskislóð þar sem til stendur að setja upp bensíndælur frá fyrirtækinu án frekari þjónustu.

„Við gerðum samkomulag við borgina í júní 2021 og vorum mjög sátt við það samkomulag,“ segir Ýmir Örn Finnbogason, framkvæmdastjóri N1, í samtali við mbl.is. Samkvæmt því átti stöðin að víkja af Ægisíðunni þar sem hún hefur staðið frá árinu 1978.

„Við vitum ekkert nánar um þetta fyrr en við klárum það samtal með Reykjavíkurborg, hvað það þýðir nákvæmlega. Okkar vilji er að stöðin fari og samkomulagið haldi,“ segir Ýmir um þau tíðindi sem flutt voru á mbl.is í gær.

Óljóst hver sé eigandi lóðarinnar

Spurður hver sé raunverulegur eigandi að lóðinni í ljósi þessara vendinga, hvort það sé N1 eða borgin, þá segir Ýmir það nokkuð óljóst. 

„Næstu skref eru að setjast niður með skipulagsyfirvöldum í borginni og þá að fá út hvað þetta þýðir fyrir okkur og reitinn. Það er kannski lagatúlkunarlegt atriði hvaða áhrif þetta hefur á skipulagsmálin,“ segir Ýmir. 

Spurður hvort það sé mál manna hjá N1, að þessi bensínstöð sé fegurri en aðrar frá fyrirtækinu sem ekki voru sett í friðunarflokk, þá segir Ýmir skoðanir misjafnar eins og gengur og gerist. 

„Sitt sýnist hverjum í þessu, hvað sé fallegt og hvað ekki. Það er vissulega gaman að það hafi verið settur metnaður í teikningar og hönnun á þessari stöð á sínum tíma. En að öðru leyti get ég ekkert sett mig í dómarasæti með það hvað á að vernda og hvað ekki. Þess vegna erum við með stofnanir á borð við Borgarsögusafn til að ákveða um þetta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert