„Sársaukafullt að horfa í spegil tímans“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir niðurstöður skýrslunnar bæði sláandi og …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir niðurstöður skýrslunnar bæði sláandi og grafalvarlegar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, segir niðurstöður nefndar sem rannsakaði starfsemi vöggustofa sem reknar voru í Reykjavík á árunum 1949 til 1973 vera bæði sláandi og grafalvarlegar. 

Niðurstöður nefndarinnar, sem kynntar voru á blaðamannafundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag, sýna fram á að börn hafi sætt illri meðferð á Vöggustofunni Hlíðarenda á árunum 1949 til 1963. Þá hafi börn í ýmsum tilvikum einnig sætt illri meðferð á Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins á árunum 1963 til 1973. 

Fagfólk fékk ábendingar og vissi betur

„Þetta eru sannarlega sláandi niðurstöður og í raun ákveðið áfall,“ segir Dagur.

„Það er ákveðið áfall að þarna er dregið ítarlega fram að á þessu tímabili, fyrir 50-70 árum, þá var til staðar víðtæk þekking um mikilvægi tengsla fyrir uppeldi og þroska barna. Þannig það er alls ekki þannig að þessi vinnubrögð hafi viðgengist vegna þekkingarleysis eða tíðaranda.

Fagfólk í þessum efnum hefði mátt vita betur og fékk raunar ábendingar eins og fram kemur í skýrslunni að þetta væri ekki gott og þess vegna er það meginniðurstaða skýrslunnar að þetta verklag hafi falið í sér illa meðferð á börnum. Það er auðvitað bara grafalvarlegt," segir Dagur. 

Skýrslan marki tímamót

Dagur segir skýrslu nefndarinnar marka tímamót vegna þess að í fyrri úttektum á vistheimilum og sambærilegum stofnunum hafi ekki verið gerðar jafn árangursríkar tilraunir til þess að kortleggja afdrif einstaklinganna sem þar dvöldu. 

„Þessi gögn, sem byggja meðal annars á dánarmeinaskrá, örorkumati og öðrum viðkvæmum gögnum, draga fram að einstaklingar sem þarna voru hafa í gegnum lífið verið tvöfalt líklegri til þess að látast um aldur fram. Einnig eru stórauknar líkur á að þau hafi þurft að þiggja örorkubætur eða endurhæfingarlífeyri,“ segir Dagur. 

Borgin hyggst biðja þolendur afsökunar

Dagur segir niðurstöðurnar sláandi og í samræmi við málflutning margra sem árum saman hafa reynt að vekja athygli á málinu og sóst eftir úttekt á því.

Nú þegar niðurstaða hefur fengist í málið segir Dagur það liggja beint við að borgin beiti sér fyrir því að biðja þá sem þurftu að þola illa meðferð innan stofnananna tveggja afsökunar og reyna eftir fremsta megni að koma til móts við þau. 

„Það er mjög margt sem við þurfum að fjalla um: þessar beinu tillögur frá nefndinni, hvort það séu einhverjir angar af málinu sem krefjist frekari umfjöllunar og hvort það sé eitthvað í samtímanum sem þetta varpi ljósi á sem þurfi að ræða,“ segir Dagur.

„Þó það geti verið ofboðslega sársaukafullt að horfa svona í spegil tímans erum við að gera það til þess að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig og til þess að betrumbæta það sem við erum að vinna í á hverjum degi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert