„Það er mjög sláandi fylgni á milli ákveðinna þátta í lífi fólks og sjálfsvígshugsana. Áfallasagan kemur þar mjög sterkt inn og það í sjálfu sér kemur okkur ekki á óvart en þetta er staðfesting á því sem við höfum verið að fá inn á borð til okkar. Má þar nefna kynferðislegt ofbeldi, einelti, fíkn, það að fólk sé heilsulaust, í fjárhagslegum vandræðum eða búið að missa vinnuna. Þetta eru allt saman þættir sem hafa mjög sterk áhrif.“
Þetta segir Kristín Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Píeta-samtakanna spurð að því hvort niðurstöður úr nýrri skýrslu, sem birtar voru í gær á málþingi samtakanna í Iðnó, hafi komið á óvart en upplýsingarnar voru unnar nafnlaust úr tölfræði samtakanna, allt frá upphafi starfseminnar árið 2018.
Á málþinginu var meðal annars greint frá því hvaða þjóðfélagshópar það eru sem sækja þjónustu Píeta-samtakanna, með tilliti til ýmissa þátta eins og aldurs, áfallasögu, fjárhagsstöðu, tengsla og menntunar.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag.