Vonsvikin með ríkisstjórnina gegn verðbólgunni

Dr. Katrín Ólafsdóttir, dósent í hagfræði við Háskólann í Reykjavík.
Dr. Katrín Ólafsdóttir, dósent í hagfræði við Háskólann í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dr. Katrín Ólafsdóttir, dósent í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, segist alveg eins hafa átt von á því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands héldi stýrivöxtum óbreyttum eins og raungerðist í gær.

Katrín sat sjálf í peningastefnunefnd bankans í áratug, sem er hámarks skipunartími í nefndinni. Síðasta vaxtaákvörðun sem hún tók þátt í var kynnt 9. febrúar á síðasta ári en þá var tilkynnt hækkun um 75 punkta og stýrivextir fóru í 2,75%.

Hefði viljað meiri stuðning ríkisstjórnar

„Ég átti alla vega ekki von á lækkun. Mögulega 25 punkta hækkun en óbreyttir vextir komu í raun ekkert á óvart,“ segir Katrín sem sá ekki ástæðu til þeirrar 50 punkta hækkunar sem margir greiningaraðilar höfðu spáð.

Kveðst hún ekki útiloka frekari hækkanir í framhaldinu en vona að toppinum sé náð.

Talið berst að gagnrýni á Seðlabankann en Katrín segir að hafa beri í huga að hlutverk hans sé einmitt þetta samkvæmt lögum. Segist hún vonsvikin með stuðning ríkisstjórnarinnar við að berjast við verðbólguna.

„Ég hefði viljað sjá meiri stuðning koma frá þeim, í hvaða formi sem hann kæmi, og þá eru líkur til að svona miklar vaxtahækkanir hefðu ekki verið þarfar.“

Vísar hún þar meðal annars til frekari skattahækkana. Segir Katrín erfiðara að draga úr útgjöldum en að hækka skatta.

„Þrír fjórðu af útgjöldunum eru heilbrigðis-, mennta- og félagsmál. Þú getur dregið úr þenslunni hvorum megin sem er, dregið úr útgjöldum eða hækkað skattana.“

Þar segir hún til dæmis auðlindagjöld blasa við.

Jákvæð teikn á lofti

Segir hún jákvæð teikn á lofti þegar kemur að verðlagi.

„Eins og þetta hefur verið undanfarið hafa svo margir liðir verið að hækka mikið en nú eru færri liðir að hækka minna. Það eru góðu fréttirnar.

Ég myndi segja, ef verðbólguvæntingar haldast þar sem þær eru, þá eykur það líkur á frekari vaxtahækkun, en ef við förum að sjá verðbólguvæntingar fara niður þá minnkar það líkur á vaxtahækkunum.

Þetta liggur svolítið þar. Hverjar verða hækkanirnar á næstunni og hvað verður um væntingarnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert