Fimmtán ár frá bankahruni

Fimmtán eru í dag síðan Geir H. Haarde flutti eftirminnilega ræðu þar sem hann bað guð að blessa Ísland. Í hugum flestra er þetta dagurinn sem bankahrunið varð raunverulegt þó Glitnir hafi vissulega fallið um viku fyrr.

Már Mixa dósent á félagsvísindasviði í viðskiptafræði við Háskóla Íslands var starfsmaður Sparisjóðsbankans í lausafjárstýringu þann 6. október. 

Hann segir ekkert benda til þess að annað bankahrun sé í vændum og að heilmargt hafi færst til betri vegar í bankakerfinu. Þá séu bankamenn í dag mun betri en hann og aðrir sem störfuðu í bönkunum á sínum tíma þegar bankarnir féllu.

Kom á óvart hve mörgum var brugðið

„Það var búið að hvísla mikið um þetta meðal ákveðinna starfsmanna, að ástandið væri afar dökkt. Síðan er þessi ræða [Geirs H. Haarde] og margir voru í áfalli eftir hana enda tók hann ansi djúpt í árinni,“ segir Már. 

„Það kom mér á óvart hve mörgum var brugðið. Mér hafði fundist slæmt ástand í umtalsverðan tíma og að eitthvað slæmt lægi í loftinu. Ég ætla ekki að þykjast vita til um að allt myndi hrynja eins og dóminó en mér fannst ljóst að erfiðir tímar væru fram undan,“ segir Már um upplifun sína af tímabilinu fyrir hrun.

Allt upp í háaloft við eðlilega arðsemi 

Már Wolfgang Mixa.
Már Wolfgang Mixa. Ljósmynd/Aðsend

Að hans viti hefur heilmargt færst til betri vegar innan bankakerfisins. Þannig séu regluverk og hugmyndafræði betri en var á sínum tíma.

„Árin fyrir 2008 þá samgladdist fólk velgengni bankanna innilega. Engu að síður var vaxtamunur bankanna meiri og íbúðalán miklu dýrari en í dag. Nú hefur þetta eiginlega snúist við upp í öndverðu sína. Nú mega bankarnir ekki ná eðlilegri arðsemi án þess að allt fari í háa loft,“ segir Már.

Hann segir að velta megi fyrir sér hvort of mikið aðhald sé í fjármálastarfsemi í dag.

„Bæði almenningur og bankamenn eru miklu betri. Ég segi oft að íslenskir bankamenn í dag séu á heildina litið betri [...] í raun miklu, miklu, betri en ég og mitt fólk vorum á sínum tíma,“ segir Már.

Hafa ekki áhuga

Hann telur að hrunárin séu að baki í huga flestra en þó sé hópur sem muni aldrei jafna sig almennilega á þessum tíma.

„Ég finn það til að mynda á nemendum mínum. Þeir hafa ekki áhuga á áhrifum hrunsins. Maður þarf að hafa þá umræðu í lágmarki áður en fólk svissar yfir á Facebook,“ segir Már en hann kennir meðal annars námskeið um fjármálamarkaði hjá Háskóla Íslands.

Hann segir þó að ekki megi gleyma því að um 1% þjóðarinnar hafi hrökklast úr húsnæði sínu og sé enn með óbragð í munni.

Mjög róstusamur tími tók við í íslensku samfélagi eftir bankahrunið.
Mjög róstusamur tími tók við í íslensku samfélagi eftir bankahrunið. mbl.is/Ómar

Allt annað ástand í gangi 

Spurður hvort líkur séu á öðru hruni, sé tekið mið af núverandi ástandi þá telur Már slíkt ekki líklegt.

„Nei, það er allt annað ástand í gangi,“ segir Már.

Til samanburðar segir Már að hann hafi verið búinn að ákveða að skrifa meistararitgerð sína um hrun á íslensku fjármálakerfi þegar árið 2004 eða 2005. Hann telur sig hafa séð í hvað stefndi löngu áður en að hruninu kom. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert