Matvælalagerinn tengdur veitingastað

Matvælin voru í geymslurými í Sóltúni 20.
Matvælin voru í geymslurými í Sóltúni 20. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrirtækið Vy-þrif var með geymslurýmið í Sóltúni á leigu, sem hýsti ólöglega matvælalagerinn sem matvælaeftirlitið lagði hald á í síðustu viku og fargaði á mánudaginn.

Eigandi þrifafyrirtækisins er stórtækur veitingamaður sem á m.a. veitingahúsakeðjuna Pho-Vietnam. 

Þetta er fullyrt í umfjöllun Vísis og Stöðvar 2 en fyrst var greint frá málinu í Morgunblaðinu og á mbl.is í gærmorgun.

Ekki hafa fengist upplýsingar hjá matvælaeftirliti Reykjavíkurborgar um hvort matvælin hafi verið seld til fyrirtækja með veitingarekstur eða í búðir. Umfang matvælalagersins gefur þó til kynna að ekki hafi verið um einkaneyslu að ræða.

Nokkur tonn af matvælum

Óskar Ísfeld Sigurðsson, deildarstjóri matvælaeftirlits Reykjavíkurborgar, sagði í samtali við mbl.is að matvælin hefðu skipt nokkrum tonnum. Sagði hann þau geymd við óheilnæmar aðstæður í geymslurýminu og að þau hefðu ekki verið hæf til neyslu.

Samkvæmt heimildum mbl.is höfðu aðrir sem eru með afnot af húsinu kvartað undan lykt sem barst frá geymslurýminu.

Matvælaeftirlitið lagði hald á matvælin í síðustu viku og lauk förgun á mánudag. Alls komu tíu heilbrigðisfulltrúar að aðgerðinni, sem er sögð fordæmalaus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert