Rjúpnaveiðar hefjast eftir tvær vikur

Í ár eru einum fleiri veiðidagar en í fyrra.
Í ár eru einum fleiri veiðidagar en í fyrra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rjúpnaveiðimenn fá að taka upp rifflana að nýju þann 20. október. Veiðidagar eru einum fleiri í ár heldur en í fyrra. Þó er enn sölubann á fuglinum.

Segir í tilkynningu frá Stjórnarráðinu að Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hafi staðfest að veiðitímabil rjúpu yrði frá 20. október til 21. nóvember í ár. Heimilt verður að veiða rjúpu frá og með föstudögum til og með þriðjudögum á því tímabili.

Að því leyti rímar ákvörðun ráðherra rímar við tillögur Um­hverf­is­stofn­unnar (UST).

Ítrekað er að sölubann er á rjúpum og á það jafnt við um sölu til endursöluaðila og annarra. Er veiðimönnum bent á að kynna sér takmarkanir á veiðum á friðlýstum svæðum og eru þeir hvattir til góðrar umgengni um náttúru landsins. Verndarsvæði verður á Suðvesturlandi líkt og undanfarin ár, en vinna er hafin við endurskoðun þess.

Unnið að nýrri verndaráætlun

„Stefna stjórnvalda er að nýting rjúpnastofnsins, líkt og annarra auðlinda, skuli vera sjálfbær. Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin neyslu. Til að vinna að sjálfbærri veiðistjórnun eru stundaðar mikilvægar rannsóknir og vöktun á stofninum og fyrir hendi er stjórnkerfi til að stýra veiðinni að viðmiðum um hvað telst sjálfbær nýting,“ segir í tilkynningunni.

Síðastliðið ár hefur farið fram vinna við stjórnunar- og verndaráætlun rjúpu og nýtt stofnlíkan fyrir rjúpnastofninn.

Dr. Fred Johnson, bandarískur sérfræðingur í líkanagerð og veiðistjórnun við Háskólann í Árósum og Háskólann í Flórída, hefur leitt vinnuna og unnið að nýju og endurbættu stofnlíkani. Markmið með nýrri stjórnunar- og verndaráætlun og nýju stofnlíkani er að efla faglegan grunn veiðistjórnunar, efla traust meðal hagsmunaaðila og stofnana og að auka gagnsæi og fyrirsjáanleika í árlegri veiðistjórnun. Gert er ráð fyrir að stjórnunar- og verndaráætlun verði skilað til ráðherra á næstu vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert