Skapaði óttaástand á heimilinu en fær mildari dóm

Landsréttur - dómsalur -
Landsréttur - dómsalur - mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlmaður sem var dæmdur fyrir stórfelld brot gegn þáverandi eiginkonu sinni og börnum sínum tveimur í héraðsdómi hefur hlotið mildari dóm.

Í febrúar árið 2022 hlaut maðurinn tveggja ára fangelsisdóm í héraðsdómi Reykaness og var hann sömuleiðis dæmdur til að greiða fyrrverandi eiginkonu sinni 3,5 milljónir króna í miskabætur auk þess sem hann átti hann að borga syni sínum 2,5 milljónir króna en dóttur sinni 1,5 milljónir.

Landsréttur hefur aftur á móti mildað fangelsisvistina í átján mánaði og lækkað upphæð miskabótanna, sem honum var gert að greiða eiginkonu sinni, um eina milljón. Miskabætur til barnanna haldast þó óbreyttar.

Sló eiginkonu sína og barði höfði hennar í rúmið

Brotin sem maðurinn er dæmdur fyrir voru framin á tímabilinu 1. ágúst 2012 til febrúar 2019. Í dóminum segir að hann hafi ítrekað, endurtekið og á sérstaklega sársaukafullan hátt ógnað lífi þáverandi eiginkonu sinnar, heilsu og velferð með líkamlegu og andlegu ofbeldi.

Í dómi héraðsdóms er minnst á atvik sem gerðist í byrjun febrúar 2013. Kemur fram að hann hafi hrint eiginkonu sinni er hún ætlaði að standa upp úr sófa svo hún féll á stofuborð. Síðan ætlaði hún að yfirgefa íbúðina en hann meinað henni för, hrinti henni aftur inn í íbúðina og ýtti henni inn í svefnherbergi. Þar hrinti hann henni svo hún féll á fataskáp og hann sló hana ítrekað utan undir með lófum beggja handa. Síðan henti hann henni í hjónarúm og lamdi höfði hennar ítrekað í rúmið.

„Af vottorði geðlæknis er ljóst að miski [eiginkonu hans] er gríðarlegur og ekki séð fyrir endann á því tjóni sem [maðurinn] hefur valdið sálarlífi hennar þótt þrjú ár séu liðin frá því hún braust undan þeirri langvarandi kúgun, ofríki og ógnar-og óttaástandi sem [maðurinn] skóp á heimili hennar og barnanna,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Beitti börnum sínum ítrekað ofbeldi

Einnig er hann sagður hafa á ítrekað ógnað lífi, heilsu og barna sinna með því að beita ítrekuðu og margendurteknu líkamlegu ofbeldi á heimili þeirra.

Var hann m.a. sagður hafa kýlt son sinn í maga og handlegg, slá hann í höfuðið, sparka í fótlegg hans og rass. Þá hafi hann einnig ítrekað slegið dóttur sína í bak og rass, gripið um háls hennar, kreist hönd hennar og togað í og snúið upp á eyru hennar.

Einnig segir í dómnum að börnin hafi verið stundum verið viðstödd þegar faðirinn beitti aðra fjölskyldumeðlimi ofbeldi, t.a.m. ömmu þeirra eða móður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert