„Þessi framsetning var ekki viðeigandi“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að fólk sem vilji láta taka …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að fólk sem vilji láta taka sig alvarlega í stjórnmálum verði að tjá sig af virðingu um samstarfsfólk sitt. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir framsetningu orða Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ekki hafa verið viðeigandi. Orðin hafði Áslaug um samráðherra sinn í ríkisstjórn, Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra, á ráðstefnu fyrirtækja í sjávarútvegi. 

Spurð út í ummæli Áslaugar að loknum ríkisstjórnarfundi í dag sagði Katrín:

„Sko, fólk sem er í stjórnmálum og vill láta taka sig alvarlega – vill vera forystufólk í stjórnmálum – það á auðvitað að vanda sig þegar það ræðir um samstarfsfólk sitt og gera það af virðingu og ábyrgð,“ sagði Katrín og bætti við: „Þessi framsetning var ekki viðeigandi.“

Ekki ætlunin að vega að persónu Svandísar

mbl.is náði tali af Áslaugu Örnu eftir ríkisstjórnarfund og sagðist hún skilja að Svandísi hefði sárnað orð hennar. Það hefði ekki verið ætlunin að vega að persónu hennar með orðunum.

Svandís kaus að tjá sig ekki um ummæli Áslaugar þegar eftir því var leitast í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert