Ragnhildur Gunnarsdóttir, verkfræðingur hjá EFLU, sagði meiri áherslu en áður vera lagða á samráð frá fyrstu stigum þegar kemur að verkefninu um lagningu Sundabrautar.
Ragnhildur fór yfir stöðu umhverfismats vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar á morgunfundi Vegagerðarinnar í morgun. Umsagnir þurfa að berast fyrir 19. október.
Fram kom á fundinum að umhverfismatið í kringum svona framkvæmd væri nokkuð umfangsmikið.
Þeir umhverfisþættir sem eru undir eru hugsanleg loftslagsáhrif, áhrif á hljóðvist, umferð og samgöngur, áhrif á ásýnd og landslag, staðbundin loftgæði, áhrif á útivist og öryggi, menningarminjar, hafstrauma, öldufar og setflutninga, botndýralíf, náttúruminjar og verndarsvæði, fuglalíf, fiska og gróðurfar.
Sagði hún að rannsóknir sem þyrfti að gera sneru meðal annars að hljóðvistarútreikningum, umferðargreiningum og rannsóknum á fyrrum urðunarstað í Gufunesi. Þá verði unnin ásýndargreining og gerð líkanmynda af mannvirkjum. Kolefnissporið sagði Ragnhildur að hefði verið reiknað nú þegar.
Líkanútreikningar á áhrif á hafstrauma verða gerðir sem og áhrif á setflutninga og öldufar. Fuglatalningar verða gerðar og gróðurfarsúttektir ásamt fornminjaskráningum, landslagsgreiningum. Þá verði byggt á fyrirliggjandi rannsóknum og gögnum um fiska, botndýralíf og fleira.
Íbúafundir hafa verið eða verða haldnir til kynningar í Laugardal, Grafarvogi, á Kjalarnesi, í Mosfellsbæ og á Akranesi og vakti Ragnhildur athygli á því að skriflegar umsagnir vegna verkefnisins þurfi að berast fyrir 19. október í gegnum skipulagsgátt Skipulagsstofnunar.
Fundurinn var í beinu streymi á mbl.is.