Hátt í 100 manna hópur Íslendinga í Ísrael

Mynd tekin af Íslendingum sem taka því eins rólega og …
Mynd tekin af Íslendingum sem taka því eins rólega og hægt er í Jerúsalem. Ljósmynd/Aldís

„Hér eru loftvarnarbyrgi á hverri hæð og við settumst í þau eftir að við sáum sprengjuna hér áðan,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir, sveitarstjóri Hrunamannahrepps, í samtali við mbl.is en hún er á hóteli í Jerúsalem í Ísrael ásamt 90 öðrum Íslendingum.

Veigamiklar árásir af höndum palestínsku Hamas-samtakanna byrjuðu í nótt og hefur um 5.000 flugskeytum verið skotið frá Gasasvæðinu yfir til Ísrael í átt að almennum borgurum og byggingum. Að minnsta kosti 22 eru látnir.

Að sögn Sigurðar Kolbeinssonar fararstjóra og eiganda ferðaskrifstofunnar Kólumbus eru Íslendingarnir á öruggum stað á hótelinu í Jerúsalem.

Fundu fyrir sprengjum

Aldís segir að um klukkan 8 að staðartíma fóru loftvarnaflautur að óma um Jerúsalem og klukkan 11 að staðartíma varð íslenski hópurinn var við sprengingar.

„Við getum ekki betur fundið en að hér hafi fallið sprengjur og við sáum stíga upp reyk úr hverfi fyrir utan gluggann hjá okkur og því fylgdu kröftugir hvellir.“

Íslenski hópurinn er búinn að fara á upplýsingafund um ástandið og fær ekki að fara út af hótelinu í dag. Upphaflega stóð til að hópurinn yrði í viku í Ísrael en eins og stendur núna þá ríkir algjör óvissa um framhaldið.

Aldís segir að ágætlega fari um hópinn, fólk er rólegt og fólk finnur sér ýmist til athafna til að drepa tímann.

Loftvarnabyrgi eru á hverri hæð á hótelinu og í kjölfar sprenginganna um ellefuleytið ákváðu mörg þeirra að tylla sér í birgjunum í varúðarskyni.

„Við Íslendingar erum náttúrulega gjörn á það að taka ekki mark á nokkrum sköpuðum hlut. Brunarvarnarkerfin fara af stað og maður hreyfir sig ekki, loftvarnarkerfin fara af stað og maður hreyfir sig ekki en svo horfir maður út um gluggann og við finnum fyrir tveimur kröftugum hvellum þannig við ákvaðum nú að tylla okkur í loftvarnarbyrgjunum,“ segir Aldís.

Voru á átakasvæðinu í gær

Aldís og maðurinn hennar ásamt nokkrum hjónum mættu nokkrum dögum fyrr í Ísrael og voru í borginni Eilat í suðurhluta Ísrael, en í suðurhlutanum geisa mestu átökin. Hurð skall nærri hælum því þau voru þar í gær og kveðst Aldís ekki hafa hugmynd um hvernig þetta hefði endað hjá þeim hefðu þau ekki komið til Jerúsalem fyrir árásirnar. 

„Við erum svo lánsöm að hafa komið í gær.“

Að lokum segir Aldís að Sunnlendingarnir biðji vel að heilsa heim til Íslands.

Aldísi hefur verið að birta myndbönd á Instagram til að uppfæra fólk um hvernig ástandið er frá þeirra bæjardyrum séð. Hún er til dæmis með myndband af því þegar loftvarnaflauturnar fóru í gang og viðbrögð í kjölfar sprenginga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert