Ísland fordæmir hryðjuverk Hamas

Þórdís segir íslensk stjórnvöld fordæma hryðjuverk Hamas.
Þórdís segir íslensk stjórnvöld fordæma hryðjuverk Hamas. Samsett mynd

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra Íslands, segir í samtali við mbl.is að Ísrael sé í fullum rétti til þess að verja sig gegn hryðjuverkunum sem hófust í nótt.

Palestínsku hryðjuverka- og stjórnmálasamtökin Hamas hafa nú myrt um 100 Ísraela í árásum sínum. Um 200 Palestínumenn hafa látið lífið í gagnárásum Ísraelshers.

„Ísland fordæmir hryðjuverkaaðgerðir Hamas sem hófust í nótt og standa enn yfir. Ísrael hefur rétt til þess að verja sig gegn slíkum árásum, vitanlega í samræmi við þau alþjóðalög sem um það gilda. Það er rík ástæða til að hafa áhyggjur af þessu ástandi,“ segir Þórdís.

Þórdís segir hérlend stjórnvöld fylgjast náið með ástandinu og leggi fyrst og fremst áherslu á að tryggja þurfi öryggi fólks og „binda enda á vítahring ofbeldisverka á svæðinu“.

Borgaraþjónustan í samskiptum við Íslendinga

Eins og mbl.is hefur fjallað um í dag þá eru töluverður fjöldi Íslendinga í Ísrael. Þórdís segir borgaraþjónustuna vera í samskiptum við þau.

„Borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins er í sambandi við Íslendinga á svæðinu og er ekki vitað til þess að nokkuð ami að neinum þeirra,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert