„Það eru allir óhultir og ekki neitt hættuástand hjá okkur. Allir eru öruggir,“ segir Sigurður K. Kolbeinsson, framkvæmdastjóri Kólumbus ferðaskrifstofu og fararstjóri hjá um 90 manna hópi Íslendinga í Jerúsalem í Ísrael, í samtali við mbl.is
„Menn vöknuðu upp við það upp úr klukkan 8 í morgun að það heyrðust hvellir og það er þannig að Hamas er að skjóta rakettum yfir allt landið og þær voru skotnar niður af varnarkerfum Ísraelsmanna.
Mönnum brá auðvitað og við funduðum klukkan 10 í morgun. Fólk heldur ró sinni en fólk er ekki vant því að vera í stríðshrjáðu landi,“ segir Sigurður.
Að sögn Sigurðar hafa engar sprengjur verið í návist hótelsins en í tugkílómetrafjarlægð voru sprengjur skotnar niður af varnarkerfi Ísraelsmanna. Sigurður er í virkum samskiptum við borgaraþjónustuna og kveðst fá upplýsingar um ástandið reglulega.
„Við vitum ekki hvernig þróunin verður en mínar heimildir herma að ísraelski herinn hafi náð tökum á ástandinu í Suður-Ísrael. Við erum miðsvæðis í Ísrael og er allt með kyrrum kjörum hér og fer vel um hópinn.“
Upphaflega átti hópurinn að vera í vikuferð í Jerúsalem en vegna ástandsins er ekki hægt að spá fyrir um hvort frekari raskanir verði.
„Við tökum þetta bara nokkra klukkutíma í einu. Þetta ræðst alveg af ástandinu í landinu. Ef ríkisstjórn Ísraels tekst að semja þetta stríð niður þá höldum við okkar dagskrá áfram en ef ekki þá tekur við óvissuástand sem ég get ekki ráðið í frekar en nokkur annar maður á þessari stundu.“