Krefjast að stjórnvöld standi við orð sín

Frá fundi ÖBÍ í gær.
Frá fundi ÖBÍ í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands krefst þess að stjórnvöld standi við orð sín og að tekjulægsti hópur samfélagsins fái lífsnauðsynlega kjarabót. Er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hvött til þess að bregðast við vaxandi fátækt fatlaðs fólks og hækka örorkulífeyri um 12,4% tafarlaust.

„Matarkarfan hefur nú hækkað um 12,4%, húsnæðiskostnaður eykst stöðugt og hækkanir á lífeyri ná varla að halda í við verðbólgu, hvað þá meira. Þau tekjulægstu í íslensku samfélagi verja stærstum hluta tekna sinna í nauðsynjar, miklum mun stærri en aðrir hópar. Það er því hófsöm krafa ÖBÍ réttindasamtaka að lífeyrir verði hækkaður um þessi sömu 12,4%,“ segir í ályktun aðalfundar bandalagsins. Fundinum lauk í dag.

Í ályktuninni er ríkisstjórnin minnt á eigin stjórnarsáttmála þar sem fram kemur: „Afkoma örorkulífeyrisþega verður áfram bætt með það að markmiði að bæta sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa.“

Stemma stigu við hækkun matvæla

Í greingargerð ÖBÍ er lagt til að örorkulífeyrir verði hækkaður um 12,4 prósent þann 1. janúar 2024 í stað 4,9 prósenta eins og áætlað er í frumvarpi til fjárlaga.

Sú hækkun ætti að stemma stigu við hækkun matar og drykkjar sem er samkvæmt Hagstofu Íslands um 35% af ráðstöfunartekjum tekjulægstu hópa samfélagsins,“ segir í greinargerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert