Nær þriðjungur innflytjenda segist einmana

11% innflytjenda segjast gífurlega einmana en aðeins 4% fólks af …
11% innflytjenda segjast gífurlega einmana en aðeins 4% fólks af íslenskum uppruna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Innflytjendur eru meira einmana en fólk af íslenskum uppruna. Í nýrri könnun um einmanaleika eldra fólks kemur fram að 31% innflytjenda séu nokkuð eða talsvert einmana, en aðeins 17% fólks af íslenskum uppruna. Jafnframt segist 44% eldra fólks af íslenskum uppruna ekki vera einmana.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið lét framkvæma könnun á einangrun og einmanaleika eldra fólks af íslenskum og erlendum uppruna. Könnunin tengist framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar Gott að eldast, sem og framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem báðar eru á ábyrgð ráðuneytisins.

Félagvísindastofnun Háskóla Íslands framkvæmdi könnunina og var hún á fjórum tungumálum: Íslensku, ensku, pólsku og spænsku. Alls svöruðu tæplega 1.400 einstaklingar. Þetta er í fyrsta sinn sem könnun sem þessi er gerð út frá uppruna. Lítið var vitað um líðan eldri innflytjenda en könnunin breytir því.

Niðurstöður voru þær að 67% svarenda töldu líkamlega heilsu sína frekar eða mjög góða og 85% töldu andlega heilsu frekar eða mjög góða.

75% eldra fólks fær heimsókn vikulega

Niðurstöður sýna að almennt var eldra fólk félagslega virkt og meirihluti var ekki félagslega einangraður. Um 90% hitti einhvern utan heimilis að lágmarki vikulega og um 75% fékk börn, ættingja eða vini í heimsókn eða heimsótti þau a.m.k. einu sinni í viku. Félagsleg virkni var örlítið minni hjá þeim sem voru eldri og hjá innflytjendum en lítill munur reyndist þar á.

Gögn sýna enn fremur að þótt dregið hafi úr daglegum heimsóknum og þær séu nú oftar vikulega en áður, hefur hlutfall þeirra sem fær aldrei heimsókn lækkað verulega. Árið 1999 fékk 9% eldra fólks aldrei heimsókn frá börnum, ættingjum eða vinum en það hlutfall var komið niður í 3% árið 2023.

11% innflytjenda segjast gífurlega einmana

Einmanaleiki er í könnun Félagsvísindastofnunar samsettur úr svokölluðum félagslegum einmanaleika, sem á við fjölda félagslegra samskipta fólks, og hins vegar tilfinningalegum einmanaleika, sem vísar til skorts á tengslum við fólk eða nánum samböndum eins og til dæmis við maka.

Á heildina litið sýna niðurstöður að 41% eldra fólks hér á landi er ekki einmana. Á hinn bóginn er 6% eldra fólks talsvert eða gífurlega einmana. Þá er hærra hlutfall fólks með tilfinningalegan einmanaleika fremur en félagslegan, þ.e. algengara er að það skorti tengsl við fólk/náin sambönd heldur en að það skorti almenn félagsleg samskipti við fólk.

Sé greint eftir uppruna þá benda niðurstöðurnar til þess að eldri innflytjendur séu meira einmana en einstaklingar af íslenskum uppruna. 11% innflytjenda eru talsvert eða gífurlega einmana samanborið við 4% einstaklinga af íslenskum uppruna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert