Veggjalús fjölgar hratt hér á landi

Veggjalús. Hryllingur fólks yfir veggjalús er ekki síst sálrænn, enda …
Veggjalús. Hryllingur fólks yfir veggjalús er ekki síst sálrænn, enda skríðandi kvikindi í rúmi, sem nærast á blóði, ekki skemmtileg tilhugsun. AFP

„Það er búin að vera mikil fjölgun á veggjalús á undanförnu ári,“ segir Steinar Smári Guðbergsson meindýraeyðir og segir að meira flakk á fólki milli landa og innanlands sé ástæðan. Fregnir af skæðum veggjalúsafaraldri í Frakklandi hafa verið algengar undanfarið, sem vakti áhuga á að vita hvernig staðan væri á Íslandi.

„Það var alveg þokkalega mikið af þessu kvikindi fyrir covid, en það dró úr því þá, samt ekki jafn mikið og ég hefði búist við,“ segir Steinar og bætir við að það hafi alltaf verið einhverjir sem nældu sér í óværuna þrátt fyrir samkomutakmörkin.

Steinar Smári Guðbergsson segir veggjalús helst berast milli staða á …
Steinar Smári Guðbergsson segir veggjalús helst berast milli staða á Íslandi þegar fólk fer og gistir annars staðar, hvort sem það er innanlands eða utanlands. Þá segir hann að eitur virki ekki nógu vel á lúsina og líklega sé hún búin að koma sér upp ónæmi gegn hefðbundnu eitri sem notað hefur verið.

„Svo þegar fór að létta á þessum samkomutakmörkunum, þá varð bara sprenging,“ segir Steinar og bendir á ástandið í Frakklandi, sem hefur verið skrifað um, en þar geisar veggjalúsafaraldur sem er svo skæður að aldrei hefur annað eins sést. „Nú er mikil pressa á frönsk yfirvöld að hefja markvissar aðgerðir gegn óværunni, og ég held að hérna á Íslandi megi alveg fara að tala um faraldur í þessu sambandi líka,“ segir Steinar.

Haft var samband við Heilbrigðiseftirlitið til að athuga hvort hægt væri að staðfesta þessa fjölgun veggjalúsa. Aron Jóhannsson heilbrigðisfulltrúi sagði að þeir gætu ekki staðfest þessar tölur, en sagðist hafa heyrt talað um fjölgun, en ekki séð neinar tölur um það. „Við leggjum áherslu á að gististaðir láti okkur vita ef það koma upp tilfelli af veggjalús,“ segir hann og bætir við að þeir sem sinna meindýravörnum eigi að láta heilbrigðiseftirlit vita ef þeir verða varir við fjölgun. „Þetta er tilkynningarskyld starfsemi.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert