120 Íslendingar eiga bókað flug frá Ísrael

Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair eiga um 120 Íslendingar bókað flug …
Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair eiga um 120 Íslendingar bókað flug frá Ísrael til Íslands í vikunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mörg flugfélög hafa aflýst tugum flugferða til Tel Aviv í Ísrael eftir að hryðjuverkasamtökin Hamas hófu árás á landið í gær.

Enn stendur til að flug Icelanda­ir til Tel Aviv fari klukkan 22 í kvöld en samkvæmt upplýsingum frá Icelandair eiga um 120 Íslendingar bókað flug frá Ísrael til Íslands í vikunni.

Fylgist Icelandair náið með stöðu mála. 

American Airlines, Air France, Lufthansa, Emirates og Ryanair eru meðal þeirra flugfélaga sem hafa aflýst flugferðum til Ben Gurion-flugvallarins í Tel Aviv.

Geta breytt farmiðum án endurgjalds

Ísraelska flugfélagið El Al hyggst halda flugferðum sínum áfram þótt sumum ferðum erlendra samstarfsaðila hefði verið aflýst.

„Við gætum aflýst flugferðum tl staða þar sem við höfum ekki Ísraela til að hjálpa öðrum Ísraelum á öðrum stöðum,“ sagði talskona flugfélagsins við AFP.

Líkt og mörg önnur flugfélög lýsti El Al því yfir að viðskiptavinir gætu breytt farmiðum sínum án endurgjalds.

Talsmaður þýska flugfélagsins Lufthansa sagði í gær að öllu flugi til og frá Tel Aviv yrði aflýst til og með mánudags. Þá hefur Air France aflýst sínum flugferðum til borgarinnar þar til annað verður tilkynnt.

Þá hafa flugfélögin Aegean Airlaines, Swiss Airlines, Wizz Air og Air Canada einnig aflýst sínum ferðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert