Bubbi malar gull á söngleik sínum

Með velgengni síðustu ára er Bubbi að uppskera eftir áratuga …
Með velgengni síðustu ára er Bubbi að uppskera eftir áratuga feril sem einn þekktasti listamaður þjóðarinnar. Hann á sér því nokkrar kynslóðir aðdáenda mbl.is/Eyþór

Félög í eigu listamannsins Bubba höfðu samtals á þriðja hundrað milljónir í tekjur á árunum 2021 og 2022. Þá stóðu meðal annars yfir sýningar á söngleiknum Níu líf í Borgarleikhúsinu en þær hafa notið fádæma vinsælda. Sýningarnar hófust rétt áður en kórónuveirufaraldurinn skall á með fullum þunga í mars 2020. Síðan hefur Níu líf verið meðal vinsælustu verka leikhúsanna.

Sagt var frá því á vef RÚV í byrjun júní sl., eftir sýningu númer 188, að þá hefðu ríflega 100 þúsund miðar selst á sýninguna. Sýningar standa enn yfir og á vef Borgarleikhússins er hægt að kaupa miða á fleiri sýningar. Sú síðasta, númer 225, er áformuð laugardagskvöldið 30. desember næstkomandi.

Textaverkin uppseld

Bubbi, eða Ásbjörn Kristinsson Morthens, hefur jafnframt haft tekjur af sölu textaverka á síðustu árum. Það er að segja textabrota sem sett eru fram sem myndverk. Á vef hans, bubbi.is, er líka hægt að kaupa bækur og geisladiska. Minnstu textaverkin voru 30 x 30 sm og í boði svarthvít og lituð. Jafnframt voru í boði lituð verk sem voru 60 x 60 sm. Alls voru í boði 26 verk á 35, 40 og 85 þúsund og eru þau öll uppseld, að því er segir á vef Bubba.

Þá hefur Bubbi tekjur af bókum og flutningi tónlistar sinnar við önnur tækifæri en á fjölum leikhússins.

Tvö félög eru skráð á Bubba, ÁKM slf. og Morthens slf. Hið fyrrnefnda er rekstrarfélag en hið síðarnefnda heldur utan um höfundarrétt listamannsins. Á grafinu hér til hliðar má sjá upplýsingar um helstu afkomutölur félaganna eins og þær eru birtar í ársreikningum.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út laugardaginn 7. október. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert