„Ég var ekki nema 14 ára þegar ég féll fyrir sögum Margit Sandemo um Ísfólkið. Þá leit ég út fyrir að vera 12 ára og mér fannst líf mitt skelfilega viðburðasnautt, ég þráði ævintýri, enda var ég sérdeilis rómantísk og þoldi ekki hvað ég var lítil og barnaleg. Ástir og ævintýri í Ísfólksbókunum nærðu ímyndarheim minn, ég þráði að komast burt frá leiðinlegum hversdagsleikanum, enda bera dagbækur mínar frá þessum unglingsárum þess glögglega vitni,“ segir norski rithöfundurinn Hilde Susan Jægtnes og hlær.
Svo skemmtilega vill til að þessi mikli aðdáandi bókanna um Ísfólkið, allt frá barnsaldri, hefur fengið það verkefni að skrifa þrjár nýjar bækur um Ísfólkið, undir heitinu Isfolkets forbannelse, eða Bölvun Ísfólksins.
Fyrir fimm árum lést hin norska Margit Sandemo, höfundur bókanna um Ísfólkið, en vinsældir sagna hennar hafa alla tíð verið með eindæmum. Selst hafa um 40 milljónir bóka um Ísfólkið og Margit er í fjórða sæti á lista á heimsvísu yfir þá höfunda hverra sögur mest var hlustað á sem hljóðbækur hjá Storytel í fyrra.
Bókaröðin um Ísfólkið telur 47 bækur og þar er rakin ættarsaga Ísfólksins sem á hvílir bölvun frá 11. öld fram til okkar daga. Ættfaðir Ísfólksins, Þengill hinn illi, seldi djöflinum sál sína í skiptum fyrir eilíft líf, en úr verður bölvun sem hrjáir afkomendur hans. Bölvunin felst í því að einn af hverri kynslóð skuli þjóna hinu illa. Í fyrstu sögunni berst einn afkomenda hans, Þengill hinn góði, gegn bölvuninni sem hrjáir hann. Sögurnar snúast yfirleitt um þann sem bölvunin lendir á í hverri kynslóð. Þungamiðjan er baráttan milli góðs og ills og oftast frá henni sagt frá sjónarhóli ungrar konu. Yfirnáttúrulegir kraftar spila stóra rullu og nóg er af spennu, ást og kynlífi.
„Ég drakk í mig þessar safaríku sögur af Ísfólkinu í þorsta unglingsáranna eftir æsispennandi lífi, en ég las líka Hringadróttinssögu og bækur Astridar Lindgren um Míó minn og Bróður minn ljónshjarta. Ég var veik fyrir ævintýrum og fantasíum og las teiknimyndasögur um álfa sem fóru ríðandi um á úlfabökum. Einnig las ég bækur um steinaldarkonu sem var ljónatemjari, en í þeim bókum var mjög mikið kynlíf, rétt eins og í Ísfólksbókunum,“ segir Hilde og bætir við að hún hafi lesið sumar bækurnar um Ísfólkið mjög oft.
„Þær sem mér fannst ekki nógu góðar las ég bara tvisvar, en þær sem voru mjög spennandi las ég kannski tuttugu sinnum, oftar en Hringadróttinssögu sem ég las þó níu sinnum.“
Ítarlegra viðtal er að finna í Morgunblaðinu sem út kom á fimmtudag.