„Verkið sem hófst hér í dag mun valda óafturkræfum skaða. Þeir voru byrjaðir að fylla upp, síðan stoppaði Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss framkvæmdina. Við töluðum við gröfumann sem hafði fengið heimild til að hefja verkið, en enginn veit hvaðan sú heimild kom. Við íhugum að kæra framkvæmdina,“ segir Atli Guðbrandsson, stjórnarmeðlimur Brimbrettafélags Íslands, í samtali við mbl.is.
Hópur Brimbrettafólks mótmælti fyrr í dag framkvæmdum við landfyllingu, sem hófust í morgun, að óvörum þeirra sem nýta öldurnar við aðalbrotið á hafnarsvæði Þorlákshafnar.
Að sögn Atla koma framkvæmdirnar til með að valda samfélagi brimbrettafólks á Íslandi miklum skaða, sem geti jafnvel orðið óafturkræfur, sé litið til nýtingu fjörunnar í þágu íþróttarinnar.
„Náttúruleg strandlengja verður rofin og um er að ræða varp í hafið. Til eru lög í landinu um varnir gegn mengun hafs og stranda,“ segir Atli.
„Ef af landfyllingunni verður mun aldan að öllum líkindum eyðileggjast eða breytast mikið. Það mun hafa gríðarlega mikil áhrif á brimbretta samfélagið hérlendis. Ég er nokkuð viss um að nýliðun í hópnum verður lítil sem engin og ferðamönnum muni fækka þegar þetta fréttist út. Ástæðan er sú að aldan er áreiðanlegasta alda á suðvesturhorninu,“ bætir Atli við.