Líklegt að Íran gegni hlutverki í hryðjuverkunum

Arnór Sigurjónsson, sérfræðingur í varnarmálum, segir líklegt að Íran sé …
Arnór Sigurjónsson, sérfræðingur í varnarmálum, segir líklegt að Íran sé að styðja við hryðjuverkamennina í Hamas. Samsett mynd

Arnór Sigurjónsson, sérfræðingur í varnarmálum, segir líklegt að klerkaveldið Íran styðji við palestínsku hryðjuverkasamtökin Hamas í árás sinni á Ísrael. Eitt af markmiðunum með árásinni hafi verið að spilla fyrir mögulegum friðarsamningi á milli Sádi-Arabíu og Ísraels.

„Ég myndi halda að það væru meiri líkur en minni á því að þeir [Íran] séu með puttana í þessu og að íranski byltingarvörðurinn [úrvalssveit Íranshers] sé þarna inni líka að einhverju leyti,“ segir Arnór í samtali við mbl.is.

Bendir hann á að Íran sé formlega búið að styðja hryðjuverkin hjá Hamas gegn Ísrael og að Hezbollah, hryðjuverkasamtök úr Líbanon sem eru studd af Íran, séu einnig byrjuð að skjóta eldflaugum yfir landamæri suður-Líbanon á Ísrael.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem komu fram í fjölmiðlum í gær voru einhverjar einingar af þessum palestínsku hefndarverkamönnum sem gerðu árásir á landamærabyggðir Ísrael, þeir komu ekki frá Gaza heldur utan frá. Þetta er eitthvað sem verður rannsakað betur,“ segir hann.

Þrjú meginmarkmið árásarinnar

Sádi-Arabía og Ísrael voru fyrir árásina komin ágætlega langt á veg með að gera friðarsamning sem myndi fela í sér formleg pólitísk og viðskiptatengsl á milli þjóðanna tveggja.

Fréttamiðillinn Politico og fleiri fjölmiðlar hafa fjallað um það að Íran, standi þeir að baki innrásar Hamas í Ísrael, sé að reyna að spilla fyrir þessum samningi, enda myndi hann hafa neikvæð áhrif á Íran og Palestínu. Spurður út í þessa kenningu tekur Arnór undir hana. Að baki árásarinnar séu líklega þrjár meginástæður.

„Ég held að það sé alveg rétt, það er örugglega eitt af markmiðunum. Hitt markmiðið er að þeir [Íran] eru í stríði við Ísrael í gegnum þriðja aðila, Hamas og Hezbollah.

Svo í þriðja lagi má gera ráð fyrir því að ef viðbrögð Ísraelsmanna verða jafn hörð og ofsafengin eins og þeir hafa boðað þá mun arabaheimurinn snúast gegn þeim, og jafnvel fleiri lönd á Vesturlöndum.“

Ísraelskir skriðdrekar í útjaðri bæjarins Kiryat Shmona, nálægt landamærunum að …
Ísraelskir skriðdrekar í útjaðri bæjarins Kiryat Shmona, nálægt landamærunum að Líbanon. AFP/Jalaa Marey

Innrás í Gaza yfirvofandi í gagnsókn

Arnór bendir á að nú taki við gagnsókn Ísraels. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hafi sagt í gær að þrjú markmið Ísraels væru að:

  1. Koma á stöðugleika í Ísrael með því að ráða niðurlögum hryðjuverkamannanna sem eru að gera árásir.
  2. Efla varnir á norðurlandamærum Ísraels með tilliti til Hezbollah í Líbanon.
  3. Útrýma Hamas og koma í veg fyrir að þeir geti starfað aftur.

„Það þýðir auðvitað innrás í Gaza,“ segir Arnór.

Saklaust fólk í gíslingu 

Að lokum var hann spurður út í fregnir af því að Hamas væri að setja saklausa borgara sem þeir rændu frá Ísrael í vopnabirgi sín og bækistöðvar á Gaza-svæðinu til að gera Ísrael erfitt fyrir að gera almennilega gagnsókn. Arnór segir þær fréttir, ef sannar, ekki koma á óvart í ljósi þess að það hafi verið gert áður.

„Já þeir hafa gert þetta áður, það er ekkert nýtt. Það eru eitthvað um hundrað manns sem eru talin vera í gíslingu hjá þeim. Konur, börn og gamalmenni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert