Stjórnvöld senda farþegaflugvél til Ísrael

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Hákon

Utanríkisráðherra hefur ákveðið að senda farþegaflugvél á vegum íslenska ríkisins til Ísrael. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef utanríkisráðuneytisins. Um er að ræða vél Icelandair sem íslensk stjórnvöld munu taka á leigu.

Vélinni er ætlað að ferja heim um 120 Íslendinga sem þar eru strandaglópar vegna ófriðarástandsins í landinu en það hefur sett allar samgöngur úr skorðum. 

Gert er ráð fyrir að vélin fari frá Tel Aviv klukkan 09.10 að staðartíma í fyrramálið og farþegar verði komnir til Íslands um miðjan dag á morgun. Áætlunin er þó gerð með þeim fyrirvara að verði breytingar á stöðunni í Ísrael, mun framkvæmdin taka mið af því.

Ísland hyggst bjóða Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum laus sæti í vélinni sem ekki nýtast fyrir íslenska ríkisborgara.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka