Vísað í sprengjubyrgi í kjallara hótelsins

Stefán og Arndís lentu í Stokkhólmi í dag og eru …
Stefán og Arndís lentu í Stokkhólmi í dag og eru óhult. Samsett mynd

„Þetta var mjög súrrealískt. Maður trúði þessu ekki fyrst. Síðan hringi ég í mömmu mína þegar ég er búin að gúggla þetta og hún hringir í utanríkisráðuneytið og vekur starfsmanninn sem er þar á vakt. Þá var enginn búinn að frétta af þessu heima. Við fengum engar leiðbeiningar, við þurftum að bíða og vona,“ segir Arndís Ólafsdóttir, sem var stödd á hóteli í Tel Aviv ásamt unnusta sínum Stefáni Blæ Jóhannssyni þegar Hamas hóf eldflaugaárásir á höfuðborgina.

Parið vaknaði við loftvarnarflautur þegar það dvaldi á hóteli aðfaranótt laugardagsins í höfuðborginni Tel Aviv í Ísrael. Eftir að hafa fjórum sinnum verið vísað í sprengjuskýli í kjallara hótelsins með um klukkutíma millibili ákváðu þau að hringja á leigubíl sem ók þeim upp á flugvöll.

Árásir Hamas á Tel Aviv hófust aðfaranótt laugardags og hafa …
Árásir Hamas á Tel Aviv hófust aðfaranótt laugardags og hafa haldið áfram. AFP

„Fylgið mínum fyrirmælum og enga vitleysu“

Ég vaknaði fljótlega upp úr sex og var andvaka. Síðan heyrði ég skrítin hljóð og vakti Stebba. Við vorum að velta fyrir okkur hvað þetta væri. Fyrst byrjuðum við gúggla þetta og eitthvað og lásum að þetta gætu verið sírenur í loftvarnarkerfi,“ segir Arndís, sem lagði leið sína til Tel Aviv ásamt unnusta sínum á tónleika með Bruno Mars á föstudaginn var.

Eftir því sem leið á morguninn fóru hótelgestir að leita fram á gang og mætti þá starfsmaður hótelsins á svæðið og vísaði fólki niður í sprengjuskýli í kjallara hótelsins. Þar átti að bíða í tvær mínútur uns öruggt væri að fara aftur upp á herbergi.

„Við enduðum á því að þurfa að fara þangað niður svona fjórum sinnum,“ segir Arndís og Stefán bætir við: „Það kom á klukkutíma fresti þangað til í hádeginu.“ Ákváðu þau þá að yfirgefa hótelið og leggja af stað upp á flugvöll. Leigubílstjórinn skipaði þeim að gera eins og hann sagði og keyrði hratt með þau upp á völl. 

„Það kom bara taxi og brunaði á 160 upp á flugvöll. Leigubílstjórinn sagði við okkur: „Ef það heyrist í sírenum á meðan við erum úti á götu þá hlustið á mig, fylgið mínum fyrirmælum og enga vitleysu.“ Þá áttaði maður sig á því að þetta væri í alvörunni að gerast.“

Var parinu ráðlagt af hótelstarfsmanni að fara norðanmegin við húsin, fari loftvarnarkerfið í gang, þar sem árásin kæmi sunnan frá.

Sáu för í skýjunum eftir sprengjurnar

„Um leið og við vorum komin inn í leigubílinn þá fórum við að sjá hvað var í gangi. Við sáum för í skýjunum eftir sprengjurnar.“

Þegar Arndísi og Stefáni var litið út um gluggann á …
Þegar Arndísi og Stefáni var litið út um gluggann á leigubílnum áttuðu þau sig betur á aðstæðum. Þar mátti sjá rákir á himni eftir eldflaugaárásir Hamas. Ljósmynd/Aðsend

Þegar á flugvöllinn var komið bókuðu Arndís og Stefán flug sem síðan var aflýst en þau enduðu að dvelja þar yfir nótt og fara í flug sem þau áttu upprunalega bókað til Stokkhólms. Matur á flugvellinum var orðinn af skornum skammti: 

„Það mátti sjá snakk og nammi í sjálfssölunum en annars var ekki mikill matur eftir.“ Loks flaug parið til Stokkhólms í dag og lenti þar klukkan 16.00 í dag.

„Það er mjög fínt að vera komin í öryggið. Við ætluðum að fara að fljúga til Tyrklands eða bara einhvert. Síðan ætluðum við að redda okkur þaðan og heim,“ segir Arndís sem er afar þakklát að allt hafi gengið upp að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert