Aðalmeðferð í máli karlmanns sem grunaður er um að hafa drepið Jaroslaw Kaminski í Drangahrauni í Hafnarfirði á þjóðhátíðardaginn 17. júní hófst í morgun í Héraðsdómi Reykjaness.
Maðurinn, Maciej Jakub Tali, pólskur ríkisborgari, er sakaður um að hafa stungið meðleigjanda sinn fimm sinnum með hníf, þar af þrjár í efri hluta búks. Ein þeirra er talin hafa valdið dauða meðleigjandans, en stungan náði inn í hjarta.
Maciej neitaði sök við þingfestingu málsins í byrjun september. Er það í taki við það sem áður hafði komið fram í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir manninum þar sem hann sagðist hafa stungið meðleigjanda sinn ítrekað í sjálfsvörn. Maðurinn var handtekinn á vettvangi morðsins þar sem hann var ataður í blóði.
Í gæsluvarðhaldsúrskuði yfir manninum kom fram að lögreglan hefði þó lagt fram gögn úr síma Maciej þar sem meðal annars er að finna skilaboð þar sem hann segir: „þessi vitleysingur fyrst drep ég hann svo hengi ég mig“.
Auk refsikröfu ákæruvaldsins í málinu fara eiginkona hins látna og stjúpbarn fram á samtals 17 milljónir í miskabætur í málinu og 2,5 milljónir vegna útfararkostnaðs. Jafnframt er gerð krafa um 35,7 milljónir vegna missis framfærslu.