Álagið fer hratt vaxandi vegna læknaskorts

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands.
Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélag Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Steinunn Þórðardóttir, öldrunarlæknir og formaður Læknafélags Íslands, segir að engum blöðum um það að fletta að álag á íslenskt heilbrigðiskerfi er mikið og fer hratt vaxandi, meðal annars vegna skorts á læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki, auk hraðrar fjölgunar íbúa, öldrunar þjóðarinnar og mikils ferðamannafjölda sem þenur innviði til hins  ýtrasta.

Þetta skrifar Steinunn í nýjasta tölublaði Læknablaðsins en hún tók við formennsku í Læknafélaginu i janúar 2022.

„Þessi hraði vöxtur veldur því að eitt helsta bjargráð íslensks samfélags hingað til, „þetta reddast“-hugmyndafræðin, sem byggir á meðvirkni einstaklinga með kerfinu, dugir ekki lengur til. Ekki verður lengur við það búið að gögn um mönnun og álag á lækna séu ekki til staðar eða ófullnægjandi og að aðgerðir til að mæta álaginu séu fáar og ómarkvissar. Eins þarf að bæta úr þeim misbresti að árangur slíkra aðgerða sé ekki metinn hlutlægt og aðgerðirnar endurskoðaðar út frá því.

Sumar lausnir, eins og skilaboðakerfið í Heilsuveru, sem ætlað var að draga úr komum og símtölum á heilsugæslu, hafa beinlínis aukið álagið á lækna og reynst hrein viðbót við þá þjónustu sem fyrir er. Þessi staðreynd blasir við en lausnin hefur þó ekki verið endurskoðuð,“ skrifar Steinunn.

Sóun á starfskröftum

Steinunn segir að mörg dæmi séu um augljósa sóun á starfskröftum lækna sem ekki er brugðist nægilega hratt við.

„Mikill fjöldi vinnustunda lækna, sem betur væri varið í aðra þjónustu við sjúklinga, fer í að fylla út undanþáguumsóknir vegna algengra lyfja. Þá leggja lyfjalög sérstaka og aukna ábyrgð á lækna gagnvart sjúklingi, meðal annars tekur læknirinn á sig sérstaka ábyrgð gagnvart sjúklingi um upplýsingagjöf um notkun lyfsins, til dæmis milliverkanir og aukaverkanir. Það hlýtur að vera algjört forgangsmál að draga úr þeirri miklu sóun á tíma og kröftum lækna sem hlýst af þessari stöðu mála á lyfjamarkaði hérlendis,“ skrifar Steinunn.

Hætta á sum héröð verði læknislaus innan fárra ára

Steinunn segir að ýmis héruð landsins séu i hættu að verða læknislaus innan fárra ára ef ekki verður gripið strax í taumana, auk þess sem ýmsar sérgreinar séu í útrýmingarhættu.

Hún segir að eitt af skilyrðum samninganefndar Læknafélags Íslands fyrir undirritun kjarasamnings fyrr ár árinu var að settur yrði á fót starfshópur innan vébanda heilbrigðisráðuneytisins með það hlutverk að meta hversu marga lækna þurfi til að sinna þeirri læknisþjónustu sem opinbera heilbrigðiskerfinu er ætlað veita, að teknu tilliti til eðlilega vinnuálags og lögbundinnar vinnuverndar.

Gert er ráð fyrir að hópurinn skili mati á núverandi mönnunarstöðu um næstu áramót svo unnt verði að horfa til þeirrar greiningar sem vinnan skilar í næstu kjaraviðræðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert