Maðurinn sem er ákærður fyrir tilraun til manndráps á skemmtistaðnum Dubliner í mars síðastliðnum kaus af gefa ekki skýrslu við upphaf aðalmeðferðar málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
„Ég var svo grillaður á því á þessum tíma," sagði maðurinn, Fannar Daníel Guðmundsson, og vísaði þess í stað í skýrsluna sem lögreglan tók af honum eftir að hann var handtekinn, grunaður um verknaðinn.
Fannar er ákærður fyrir að hafa farið inn á Dubliner vopnaður hlaðinni afsagaðri haglabyssu og beint henni að þremur viðskiptavinum og barþjóni áður en hann hleypti af einu skoti rétt hjá fólkinu.
Skot sem Fannar, sem er um þrítugt, hleypti af við barinn fór í vegginn og forðaði hann sér á hlaupum í kjölfarið en lögreglan fann skotvopn í grenndinni. Kvöldið eftir var hann handtekinn.
Fannar er í öðru máli ákærður fyrir rán og frelsissviptingu í félagi við annan mann á síðasta ári, auk þess sem Fannar er sakaður um kynferðisbrot í sama máli. Það mál verður tekið fyrir í héraðsdómi á morgun en þinghaldið verður lokað.