Viðburði vegna tendrunar Friðarsúlunnar í Viðey í kvöld hefur verið aflýst vegna veðurs og óhagstæðrar vestanáttar til siglinga yfir sundið. Eftir sem áður verður kveikt á friðarsúlunni klukkan 20.
Friðarsúlan er sem kunnugt er hugarfóstur Yoko Ono, til minningar um eiginmann hennar, John Lennon. Frá því að súlan var sett upp í Viðey hefur verið kveikt á henni á fæðingardegi Lennons, 9. október.
Fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að Elding, sem sér um ferjuferðir út í Viðey, telur vindáttina mjög óhagstæða til siglinga yfir sundið og hefur aflýst öllum ferjuferðum í dag og á morgun. „Þó veður geti virst ágætt skal öryggi ávallt haft í fyrirrúmi og því er þessi ákvörðun tekin í samráði við þá sem að viðburðinum koma auk viðbragðsaðila,“ segir í tilkynningunni.
Hægt verður að fylgjast með klukkan 20 á heimasíðu Imagine Peace Tower, þegar kveikt verður á friðarsúlunni og lag Lennons, Imagine, verður spilað.