Farþegaflugvél með 126 Íslendinga innanborðs, sem voru strandaglópar í Ísrael eftir að hryðjuverkasamtökin Hamas hófu innrás sína, er lögð af stað áleiðis til Íslands. Áætlaður lendingartími á Íslandi er klukkan hálf fimm í nótt.
Flugvélin lagði af stað frá Queen Alia-alþjóðaflugvellinum í Amman í Jórdaníu, klukkan 18.40 að íslenskum tíma.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
Um borð eru einnig 5 Færeyingar, 4 Norðmenn og 12 manna hópur frá Þýskalandi auk flugáhafnar og fulltrúa frá utanríkisráðuneytinu.
„Áætlað er að farþegaflugvélin millilendi stuttlega í Róm á Ítalíu vegna áhafnarskipta, en haldi svo för sinni áfram til Keflavíkur. Reiknað er með að vélin lendi á íslenskri grund klukkan hálf fimm í nótt,“ segir í tilkynningunni.