„Leit út fyrir að vera útúrdópaður“

Úr Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Úr Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is

Vitni á þrítugsaldri sagðist í héraðsdómi í morgun hafa átt samskipti við byssumanninn á Dubliners í mars rétt áður en hann skaut þar einu skoti úr afsagaðri haglabyssu.

Maðurinn hefði komið að honum og spurt hvort klúbburinn Paloma, sem er í sama húsi, væri opinn. Vitnið, karlmaður á þrítugsaldri, sagðist hafa svarað að klúbburinn væri lokaður á sunnudögum. Byssumaðurinn gekk þá í burtu og skömmu síðar heyrði vitnið skothvell. Eftir það hljóp vitnið út úr húsinu á eftir manninum en missti af honum. „Hann leit út fyrir að vera útúrdópaður," sagði vitnið.

Dubliner.
Dubliner. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Var í mikilli neyslu“

Stúlka um tvítugt bar einnig vitni og var hún spurð út í myndir sem sáust á eftirlitsmyndavélum af henni og Fannari Daníel Guðmundssyni, sem er ákærður í málinu, áður en verknaðurinn var framinn. Hún sagðist lítið muna frá þessum tíma.

„Ég man að hann var í mikilli neyslu alveg eins og ég. Ég hafði smá áhyggjur af honum," sagði hún og kvaðst ekki vita hvað hann var með í pokanum sem hann sást halda á á myndunum.

Fannar Daníel er sakaður um að hafa falið byss­una með því að vefja hana í hvíta hettupeysu og geymt hana í inn­kaupa­poka þannig að gest­ir Dubliner áttuðu sig ekki á því að hann væri vopnaður.

Þorgils Þorgilsson í héraðsdómi í morgun ásamt Fannari Daníel Guðmundssyni.
Þorgils Þorgilsson í héraðsdómi í morgun ásamt Fannari Daníel Guðmundssyni. mbl.is

Ferðir í miðbænum raktar

Í dómsalnum voru sýndar myndir úr eftirlitsmyndavélum sem röktu ferðir Fannars Daníels um miðbæ Reykjavíkur og sýndu hann m.a. fara inn á gistiheimili, English Pub og skyndibitastaðinn Dirty Burger and Ribs. Loks sást grímuklæddur maður með krónupoka ganga inn á Dubliner, taka þar upp byssuna sem var vafin inn í hvítu hettupeysuna, láta skotið ríða af í átt að barnum og hlaupa síðan út aftur eins og fætur toguðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert