Lögreglan notaðist við þrívíddarskanna til að átta sig betur á aðstæðum á vettvangi á Dubliner þar sem skotárás var gerð í mars síðastliðnum.
Notaðar voru myndir úr eftirlitsmyndavélum á staðnum þar sem sást hvar skotmaðurinn stóð og hvar hinir gestirnir voru. Þrívíddarskjal var útbúið til að sýna frá mismunandi sjónarhornum hvert höglin úr afsöguðu haglabyssunni sem var notuð við verknaðinn, fóru.
Þessu greindi lögreglumaður frá við skýrslutöku í aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Byssan var rannsökuð á skotæfingarsvæði sérsveitar ríkislögreglustjóra. Þar stilltu menn sér upp úr þeirri fjarlægð sem þeir höfðu reiknað út að skotið hefði riðið af, eða 7,10 metra, hleyptu af nokkrum skotum, tóku myndband af hverju þeirra og mynduðu dreifingu haglanna.
Verjandinn Þorgils Þorgilsson spurði hvort gikkþrýstingur hefði verið mældur. Það var ekki gert, að sögn lögreglumannsins, sem vissi ekki út af hverju. Hann tók þó fram að gikkdrægið hefði verið talið eðlilegt. Lögreglumaðurinn sagði byssuna hafa virkað sem skyldi en að engin hætta hefði verið á slysaskoti.
Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari frá embætti héraðssaksóknara, spurði hvort mannsbani hefði getað hlotist af ef einhver hefði orðið fyrir höglunum og svaraði lögreglumaðurinn því játandi.