Segir allt á misskilningi byggt

Brimbrettafólk mótmælir því að til standa að setja landfyllingu í …
Brimbrettafólk mótmælir því að til standa að setja landfyllingu í sjóinn.

Verkefnastjóri hafnarframkvæmda í Þorlákshöfn segir það á misskilningi byggt að til hafi staðið að hefja landfyllingu í Þorlákshöfn sem brimbrettakappar mótmæla.

Svo segir Sigurður Áss Grétarsson, verkefnastjóri og ráðgjafi bæjarins, í framkvæmdunum. Verið er að lengja varnargarða í suðri og austri og endurnýja gamlar bryggjur, auk þess að dýpka aðkomu fyrir stærri skip.

Vissulega séu áform um að landfyllingu en hún sé ekki komin í deiliskipulag og því hafi ekki staðið til að hefja landfyllinguna að svo stöddu. Brimbrettafélagið hafi fengið röng skilaboð frá verktaka um að til stæði að hefja landfyllingu. Brimbrettafólk telur að landfylling muni hafa áhrif á öldugang en svæðið er helsta útivistasvæði íþróttarinnar á Íslandi. 

Sigurður Áss Grétarsson, er verkefnastjóri hafnarframkvæmda í Þorlákshöfn.
Sigurður Áss Grétarsson, er verkefnastjóri hafnarframkvæmda í Þorlákshöfn.

„Ætlunin var að haugsetja dýpkunarefnið og í staðinn færðum við grjótgarð sem var þarna fyrir. Hins vegar fór gröfumaðurinn aðeins lengra með dýpkunarefnið en til stóð, út fyrir framkvæmdasvæðið. En svo grjótið í grjótgarðinum myndi ekki vera fyrir haugunum var það sett til hliðar uppi á land,“ segir Sigurður.

Fengu röng skilaboð frá verktaka  

Að sögn Sigurðar er vissulega hugmyndin að nota efnið í landfyllingu ef af verður. Hins vegar er ekki búið að samþykkja hana í deiliskipulagi. 

„Það er ekki búið að samþykkja landfyllinguna og fyrir löngu var búið að ákveða að setja efnið þarna hvort sem farið yrði í landfyllingu eða ekki,“ segir Sigurður.

Þorlákshöfn er vinsæl meðal brimbrettafólks.
Þorlákshöfn er vinsæl meðal brimbrettafólks. mbl.is/RAX

Hann segir að brimbrettakappar sem voru á svæðinu hafi fengið þau skilaboð að nota ætti efnið í landfyllingu frá verktakanum sem þarna var. Það sé hins vegar rangt.

„Það var í sjálfu sér ágætt að brimbrettafélagið hafi verið þarna því verktakinn haugsetti aðeins utar en hann átti að gera,“ segir Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert