„Við erum á leiðinni í rútum frá Jersúsalem til Jórdaníu og erum að nálgast landsmærin,“ sagði Magnús E. Kristjánsson, framkvæmdastjóri sölu og markaðsmála hjá Árvakri, við mbl.is í morgun en hann er einn af 120 manna hópi Íslendinga sem var strandarglópar í Tel Aviv í Ísrael vegna ófriðarástandsins í landinu.
„Við tökum farangurinn úr ísraelsku rútunum og í Jórdaníu taka við okkur rútur sem keyra okkur yfir til Amman á flugvöllinn. Okkur hefur verið sagt að vélin fari í loftið klukkan 10 í kvöld en þetta hefur verið að breytast til og frá,“ segir Magnús en farþegaflugvél á vegum íslenskra stjórnvalda mun flytja hópinn til Íslands.
Til stóð til að sækja hópinn til Tel Aviv í Ísrael, en Icelandair ákvað í gær að lenda ekki á flugvellinum þar vegna nýs öryggismats.
Spurður út í líðan Íslendinganna segir Magnús; „Þetta er allt þroskað fólk og það er ekki hægt að taka þessu öðruvísi en með æðruleysi.“