„Þetta er sprengja, þetta er sprengja!“

Skemmtistaðurinn Dubliner.
Skemmtistaðurinn Dubliner. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjón sem urðu vitni að skotárásinni á skemmtistaðnum Dubliner í mars gáfu skýrslu fyrir dómi í morgun.

Eftir að hafa verið á skautum á Reykjavíkurtjörn ákváðu þau að fá sér bjór á Dubliner og var hundurinn þeirra með í för. Maðurinn sagðist hafa verið við barinn þegar hann heyrði mikinn skothvell. „Ég fann að það var reykur í loftinu, ég tók hundinn í fangið og lét konuna mína leggjast á jörðina og heyrði fólk öskra í kringum mig," sagði maðurinn, sem er rússneskur ballettkennari.

Konan hans benti honum í framhaldinu á að blóð rann úr höfði hans, sem hann hafði ekki áttað sig á. Einnig nefndi hann að skotið hefði farið á milli hans og barþjónsins. Maðurinn kvaðst ekki hafa séð skotmanninn, sem var fyrir aftan hann við barinn.

Meinti árásarmaðurinn í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Meinti árásarmaðurinn í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is

Erfitt að vera innan um fólk

Spurður út í líðan sína í dag sagðist maðurinn vera sífellt með áhyggjur og gæti ekki farið nálægt Dubliner lengur. Hann eigi erfitt að vera innan um fólk og tala fyrir framan annað fólk. Til að mynda eigi hann erfitt með að tala við foreldra nemenda sinna.

Eiginkona mannsins, sem bar einnig vitni, sagðist hafa verið að horfa á eiginmann sinn er hann var að panta bjór þegar skotið reið af og allir nærliggjandi hefðu lagst á gólfið. „Við heyrðum fólk hrópa: „Þetta er sprengja, þetta er sprengja!" Maðurinn minn sagði mér að leggjast á jörðina.“

Hún kvaðst eiga erfitt með svefn eftir það sem gerðist og vakni þrisvar til fjórum sinnum á nóttu. Félagslífi þeirra hjóna væri nánast lokið og maðurinn sinn fái stöðug kvíðaköst.

Þorgils Þorgilsson lögmaður ásamt Fannari Daníel Guðmundssyni.
Þorgils Þorgilsson lögmaður ásamt Fannari Daníel Guðmundssyni. mbl.is

Labbaði inn með krónupoka og Covid-grímu

Skýrsla var einnig tekin af öðru vitni, karlmanni um fertugt. Hann var að ganga inn á Dubliner þegar hann sá mann labba þangað inn á undan sér með krónupoka og Covid-grímu.

Þegar inn á staðinn var komið og skotið reið af sagði hann viskíflösku hafa sprungið rétt yfir höfðinu á sér og viskí og glerbrot hefðu farið yfir sig. Hann sagðist í framhaldinu hafa ætlað út af staðnum en sá þá krónupokann við útidyrahurðina og hélt að sprengja væri í honum. Sneri hann þá við og fór aftur inn á skemmtistaðinn. Síðar ræddi hann við lögregluna eftir að hún kom á vettvang.

Spurður hvernig árásarmaðurinn leit út sagðist hann aðeins hafa séð augnsvipinn, enda var hann með grímu. Hann hefði þó verið hærri en hann og með dökkt hár.

Flytur frá höfuðborgarsvæðinu

Maðurinn sagðist hafa farið til sálfræðings eftir árásina og kvaðst upplifa mikinn kvíða og óöryggi. Hann færi miklu minna í miðbæinn núna en áður og hefði meira að segja ákveðið að flytja frá höfuðborgarsvæðinu út af því sem gerðist, enda líði honum illa þegar hann heyri fréttir af ofbeldi í miðbænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert