„Þetta er sprengja, þetta er sprengja!“

Skemmtistaðurinn Dubliner.
Skemmtistaðurinn Dubliner. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjón sem urðu vitni að skotárás­inni á skemmti­staðnum Dubliner í mars gáfu skýrslu fyr­ir dómi í morg­un.

Eft­ir að hafa verið á skaut­um á Reykja­vík­urtjörn ákváðu þau að fá sér bjór á Dubliner og var hund­ur­inn þeirra með í för. Maður­inn sagðist hafa verið við bar­inn þegar hann heyrði mik­inn skot­hvell. „Ég fann að það var reyk­ur í loft­inu, ég tók hund­inn í fangið og lét kon­una mína leggj­ast á jörðina og heyrði fólk öskra í kring­um mig," sagði maður­inn, sem er rúss­nesk­ur ball­ett­kenn­ari.

Kon­an hans benti hon­um í fram­hald­inu á að blóð rann úr höfði hans, sem hann hafði ekki áttað sig á. Einnig nefndi hann að skotið hefði farið á milli hans og barþjóns­ins. Maður­inn kvaðst ekki hafa séð skot­mann­inn, sem var fyr­ir aft­an hann við bar­inn.

Meinti árásarmaðurinn í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Meinti árás­armaður­inn í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í morg­un. mbl.is

Erfitt að vera inn­an um fólk

Spurður út í líðan sína í dag sagðist maður­inn vera sí­fellt með áhyggj­ur og gæti ekki farið ná­lægt Dubliner leng­ur. Hann eigi erfitt að vera inn­an um fólk og tala fyr­ir fram­an annað fólk. Til að mynda eigi hann erfitt með að tala við for­eldra nem­enda sinna.

Eig­in­kona manns­ins, sem bar einnig vitni, sagðist hafa verið að horfa á eig­in­mann sinn er hann var að panta bjór þegar skotið reið af og all­ir nær­liggj­andi hefðu lagst á gólfið. „Við heyrðum fólk hrópa: „Þetta er sprengja, þetta er sprengja!" Maður­inn minn sagði mér að leggj­ast á jörðina.“

Hún kvaðst eiga erfitt með svefn eft­ir það sem gerðist og vakni þris­var til fjór­um sinn­um á nóttu. Fé­lags­lífi þeirra hjóna væri nán­ast lokið og maður­inn sinn fái stöðug kvíðaköst.

Þorgils Þorgilsson lögmaður ásamt Fannari Daníel Guðmundssyni.
Þorgils Þorgils­son lögmaður ásamt Fann­ari Daní­el Guðmunds­syni. mbl.is

Labbaði inn með krónu­poka og Covid-grímu

Skýrsla var einnig tek­in af öðru vitni, karl­manni um fer­tugt. Hann var að ganga inn á Dubliner þegar hann sá mann labba þangað inn á und­an sér með krónu­poka og Covid-grímu.

Þegar inn á staðinn var komið og skotið reið af sagði hann viskíflösku hafa sprungið rétt yfir höfðinu á sér og viskí og gler­brot hefðu farið yfir sig. Hann sagðist í fram­hald­inu hafa ætlað út af staðnum en sá þá krónu­pok­ann við úti­dyra­h­urðina og hélt að sprengja væri í hon­um. Sneri hann þá við og fór aft­ur inn á skemmti­staðinn. Síðar ræddi hann við lög­regl­una eft­ir að hún kom á vett­vang.

Spurður hvernig árás­armaður­inn leit út sagðist hann aðeins hafa séð augnsvip­inn, enda var hann með grímu. Hann hefði þó verið hærri en hann og með dökkt hár.

Flyt­ur frá höfuðborg­ar­svæðinu

Maður­inn sagðist hafa farið til sál­fræðings eft­ir árás­ina og kvaðst upp­lifa mik­inn kvíða og óör­yggi. Hann færi miklu minna í miðbæ­inn núna en áður og hefði meira að segja ákveðið að flytja frá höfuðborg­ar­svæðinu út af því sem gerðist, enda líði hon­um illa þegar hann heyri frétt­ir af of­beldi í miðbæn­um.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert