„Við erum og getum verið öflug fyrirmynd annarra þjóða“

Nótt Thorberg er forstöðumaður Grænvangs, samstarfsvettvangs atvinnulífs og stjórnvalda um …
Nótt Thorberg er forstöðumaður Grænvangs, samstarfsvettvangs atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir.

Nótt Thorberg, forstöðumaður Grænvangs, segir að íslensk nýsköpun geti nýst vel og haft mikil áhrif á alþjóðavettvangi. Landið sé til fyrirmyndar í grænum umskiptum og mikill áhugi sé á því hvernig Íslendingar fóru að. Víða megi nýta þá tækni sem þróuð hefur verið hérlendis. Hópur íslenskra fyrirtækja mun taka þátt í loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem hefst í næsta mánuði.

Loftlagsráðstefnan verður haldin í Dúbaí síðar á árinu, 29. nóvember til 12. desember. Á ráðstefnuna koma fulltrúar frá flestum þjóðum heims til þess að ræða saman og taka stöðuna á þeim loftslagsmarkmiðum sem samið var um í Parísarsamkomulaginu árið 2015. Þó nokkrir Íslendingar munu fara utan en auk þeirra sem fara á vegum ráðuneytanna mun viðskiptasendinefnd atvinnulífsins einnig taka þátt í ráðstefnunni.

Grænvangur, samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir, heldur utan um viðskiptanefnd atvinnulífsins og þátttöku hennar. mbl.is náði tali af Nótt Thorberg, forstöðumanni Grænvangs.

„Íslenskt atvinnulíf hefur unnið öflugt starf til að tryggja það að við förum í þá átt sem stjórnvöld hafa sett markmið um. Á ráðstefnunni koma saman fyrirtæki, alþjóðleg samtök og stofnanir, auk aðila sem eru jafnvel að koma með eða leita að fjármagni eða með starfi sínu stuðla að sjálfbærum lausnum. Græn umskipti eru það stórt verkefni að engin þjóð mun geta leyst það ein. Það sama á við um atvinnulífið.“

Segir hún jafnframt að loftslagsráðstefnan sé einstakur vettvangur því þarna eigi samstarf og samráð sér stað. Mismunandi ríki tali saman auk þess sem stjórnvöld starfi náið með atvinnulífinu.

Ísland búi yfir eftirsóknarverðri þekkingu

Nótt tekur fram að hérlendis sé uppi einstök staða sökum þess hve langt Ísland er komið í grænum umskiptum, en um 85% af frumorkunotkun kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum.

Hún telur að íslensk nýsköpun geti nýst vel og haft mikil áhrif á alþjóðavettvangi. Ísland sé til fyrirmyndar í grænum umskiptum og mikill áhugi sé á því hvernig Íslendingar fóru að þessu. Máli sínu til stuðnings nefnir hún þær framfarir sem orðið hafa í kolefnisföngun, kolefnisgeymslu og framleiðslu græns metanóls. Hægt sé að nýta þá tækni sem Ísland hefur unnið að því að þróa mjög víða. „Við búum yfir eftirsóknarverðri þekkingu.“

Þau fyrirtæki sem fara fyrir Íslands hönd munu taka þátt í málstofum á meðan ráðstefnunni stendur þar sem íslenskir leiðtogar munu miðla sinni þekkingu og lausnum. „Við erum og getum verið öflug fyrirmynd annarra þjóða.“

Breiður hópur fyrirtækja innan atvinnulífsins tekur þátt

Ekki liggur ljóst fyrir hve margir munu vera í viðskiptasendinefnd atvinnulífsins á ráðstefnunni. Nú þegar eru 12 fyrirtæki skráð til þátttöku auk Grænvangs og því líklegt að hópurinn muni telja um 25-30 manns. „Þetta verður öflugur hópur fyrirtækja. Fyrir Íslands hönd er að fara fólk sem er virkilega að taka til sín í loftslagsmálum. Mörg þessara fyrirtækja hafa verið að vinna á alþjóðlegum grunni eða spila lykilhlutverk í grænum umskiptum hér heima.“

Fyrirtækin fara út að eigin framkvæði og standa sjálf straum af öllum kostnaði. „Grænvangur heldur utan um praktísk mál sem tengjast undirbúningi, auk þess að vinna markvisst að því að auka sýnileika og framlag Íslands í umræðu á þessum vettvangi. Við horfum til þess hvernig við getum stutt við tengslamyndun og þekkingarmiðlun.“

Þátttaka viðskiptasendinefndarinnar er unnin í nánu samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert