„Við þurfum að framleiða meiri mat og það hefur umhverfisáhrif. T.d. með því að framleiða lax með fiskeldi í sjókvíum. Í okkar tilviki erum við að reyna að ala verðmæta tegund eins og lax en það hefur gengið upp og niður í gegnum tíðina. Það var er ekki fyrr en fyrir rúmum áratug að hjólin fóru að snúast. Fiskeldi hefur umhverfisáhrif en flestir reyna að draga úr þeim,” segir Ólafur Sigurgeirsson, lektor í fiskeldi við Háskólann á Hólum.
„Íslendingar virtust ekki hafa áhuga á því að fjárfesta í sjókvíaeldi. Norðmenn hafa rúmlega 40 ára reynslu og kunna að gera þetta. Þeir höfðu áhuga á því að fjárfesta hér á landi en laxeldi er vaxandi atvinnugrein. Vilja Íslendingar fjárfesta í útlöndum?“ spyr Ólafur. „Eru lífeyrissjóðirnir ekki að gera það? Ætlum við að banna erlenda fjárfestingu á Íslandi?“
Náttúruverndarsinnar hafa varað við erfðablöndun íslenskra og norskra laxa, einkum eftir slyslasleppingu úr kví í Patreksfirði. „Það gerist af einhverjum klaufaskap eða handvömm. Þar var mjög hátt hlutfall af löxum þar kynþroska. Það á að vera hægt að koma í veg fyrir það með ljósastýringu. Þetta er tjón hjá fyrirtækinu því að kynþroska lax er annars flokks eða ónýt vara. Það er eðli kynþroska laxa að ganga upp í ár, sem hann hefur verið að gera. Það má búast við að hluti þessara fiska taki þátt í hrygningu með villtum löxum, sérstaklega hrygnurnar. Rannsóknir sýna að hængarnir eru óvirkir eða lélegir þátttakendur í hrygningnunni og verða undir í samkeppninni við náttúrulega laxastofna.“
Lektorinn segir að hæfni eldislaxa til að lifa af í náttúrunni eftir kynbætur sé verulega takmörkuð. „Ég trúi að náttúruvalið muni henda þeim út. Það er órökrétt að dýr með skerta hæfni taki yfir vistkerfi hjá sömu tegund sem hefur aðlagast aðstæðum í þúsund ár eða lengur.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag