„Á ég ekki bara að svæfa þig, klára þetta núna?“

Landsréttur staðfesti framhald gæsluvarðhalds yfir manninum í síðasta mánuði.
Landsréttur staðfesti framhald gæsluvarðhalds yfir manninum í síðasta mánuði. mbl.is/Hanna

Karlmaður liggur undir sterkum grun um hrottalegt ofbeldi gagnvart fyrrverandi kærustu sinni í ágúst, en í mánaðargömlum gæsluvarðhaldsúrskurði sem var birtur í dag kemur fram að hann hafi ráðist að henni og ítrekað lamið og sparkað í hana og þá sérstaklega höfuðið.

Þá hafi hann einnig reynt að kyrkja konuna og haldið henni með kyrkingartaki þar sem hún var með höfuðið undir vatni í nærliggjandi læk. Telja má næst kraftaverki að gangandi vegfarandi hafi komið þar að, en við það hætti maðurinn barsmíðunum og hljóp á brott.

Landsréttur staðfesti úrskurðinn 13. september og var varðhald yfir manninum framlengt til 5. október. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvort varðhald yfir manninum hafi verið framlengt nú þegar það rann út fyrir tæplega viku síðan.

Varðar allt að 10 ára fangelsi

Í úrskurðum Landsréttar og Héraðsdóms Reykjaness kemur fram að maðurinn sé undir sterkum grun um afbrot gegn konunni sem varði allt að 10 ára fangelsi.

Er því lýst að lögreglan hafi verið kölluð á vettvang 24. ágúst og er tiltekið að um skóglendi hafi verið að ræða. Hafi lögreglan mætt konunni þar sem hún var útötuð í blóði og blóð lak úr höfði hennar. Þá var hún einnig rennblaut, ísköld og skjálfandi.

Kyrkti konuna og reyndi að drekkja henni

Sagði konan að fyrrverandi kærasti sinn hafi ráðist á hana og meðal annars lamið og sparkað í höfuð hennar og reynt að kyrkja hana og hent henni í læk sem rann rétt hjá. Þar hafi hann haldið henni undir vatni með kyrkingartaki, en konan sagðist hafa misst meðvitund og óttast um líf sitt.

Vitni sem átti leið eftir stíg í skóglendinu varð var við árásina og sagðist hafa séð mann lemja konu og stappa ofan á höfði hennar. Lýsti vitnið því að hafa séð manninn beygja sig niður að konunni og byrja að kyrkja hana og sagt: „Á ég ekki bara að svæfa þig, klára þetta núna?“

Sagðist vitnið hafa kallað til þeirra og þá hafi maðurinn litið upp, séð vitnið og staðið upp og hlaupið af vettvangi.

Konan var nefbeins- og andlitsbrotin eftir árásina og með opin sár á höfði, marga marbletti á höfði, hálsi og víðar um líkamann. Í læknisvottorði sem lögreglan styðst við frá sérfræðilækni segir jafnframt að talið sé að áverkar konunnar séu í samræmi við áverkasöguna um kyrkingar og höggin. Þá segir jafnframt að slík áverkalýsing geti verið lífshættuleg.

Sem fyrr segir var varðhald mannsins framlengt og staðfesti Landsréttur þann úrskurð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert