Hörður Sigurbjarnarson, stofnandi Norðursiglingar hf. á Húsavík, varð bráðkvaddur á heimili sínu í Mývatnssveit aðfaranótt 8. október síðastliðins, 71 árs að aldri.
Hörður fæddist á Húsavík 9. september árið 1952. Foreldrar hans eru Hildur Jónsdóttir frá Yztafelli og Sigurbjörn Sörensson frá Voladal á Tjörnesi, sem lifa son sinn.
Hörður ólst upp í foreldrahúsum. Hann var vélstjóri að mennt en með námi stundaði hann almenn störf til sjávar og sveita.
Hann var frumkvöðull í íslenskri ferðaþjónustu. Ásamt fjölskyldu sinni byggði Hörður upp, með elju og dugnaði, fyrirtækið Norðursiglingu sem var eitt fyrsta fyrirtæki sinnar tegundar hér á landi.
Hörður tók þátt í stofnun margra annarra fyrirtækja innan ferðaþjónustu. Honum var mjög annt um náttúru lands og sjávar og tók þátt í opinberri umræðu um náttúruvernd þannig að eftir var tekið.
Hörður lét einnig verkin tala, með þátttöku í ýmsum samtökum og verkefnum, svo sem ræktun örfoka lands. Hann var óhræddur við að láta skoðanir sínar í ljósi í baráttunni fyrir aðgerðum í þágu umhverfisins.
Eftirlifandi eiginkona Harðar er Sigríður Þ. Einarsdóttir. Þau eignuðust þrjú börn.