„Við vitum það auðvitað að gyðingaandúð er viðvarandi og vaxandi vandamál. Andúð gagnvart gyðingum er hreinlega vandamál sem við erum að glíma við, því miður,“ segir Diljá Mist Einarsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, í samtali við mbl.is.
Diljá hélt ræðu á þinginu í dag þar sem hún gerði athugasemd við málflutning þeirra sem gætu ekki fordæmt fullum fetum hryðjuverkaárásir Hamas á saklausa borgara í Ísrael.
„Það hefur því verið ónotalegt að hlusta á raddir sem hafa tekið undir gagnrýni á hryðjuverkin með semingi, í það minnsta látið fylgja með nokkur „en“. Aðrir hafa talið upp ýmis „hvað með“-dæmi í þessu samhengi,“ sagði hún meðal annars í ræðunni.
Spurð hvort að það sé tilfinning hennar að margir sjái sér ekki fært að fordæma hryðjuverkin almennilega segir hún:
„Það er ekki bara tilfinning,“ segir Diljá og vísar meðal annars í opinbera umræðu á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Spurð um viðtal sem hún var í á dögunum í Kastljósi þar sem einn viðmælandinn ítrekaði stuðning sinn við árásir hryðjuverkasamtakanna gegn Ísrael, sem hún kallaði „landtökuliðið“, segir Diljá:
„Það var nú heldur betur stórt „en“,“ og bætir því við að fjöldi fólks hafi á síðustu dögum séð sér ófært um að fordæma hryðjuverkin án þess að segja „en““. Hún bendir þó á að undir lok þáttarins og á samfélagsmiðlum í kjölfar þáttarins hafi viðmælandinn dregið í land og sagst ekki styðja morðingja.
„Ég átta mig hreinlega ekki á því hvernig fólk getur við þessar aðstæður sagt „en“ eða hreinlega hjólað í yfirlýsingar utanríkisráðherra. Grimmdin í þessum hryðjuverkum minnir á aðferðir ISIS, enda eru Hamas óumdeilanlega hryðjuverkasamtök. Að fólk skuli hafa það í sér að viðhafa svona „hvað-með“ taktík skil ég bara ekki. Við hljótum að geta sammælst um það að fordæma hryðjuverk, punktur.“
Spurð að því hvað býr að baki segir hún:
„Mér finnst þetta óhuggulegt og auðvitað hlýtur maður að spyrja sig að því hvort að það sé ekki andúð sem býr þarna að baki.“